Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Sú mynd sem hv. þingmaður dregur hér upp er auðvitað kostuleg. En kannski átti þetta ekki að koma okkur svo mikið á óvart, ég rifja bara upp að undir lok síðasta þings var mál í meðförum þingsins í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem ég átti sæti, sem voru ný fjarskiptalög, stjórnarfrumvarp. Það var mál sem þurfti að klára. Það var býsna margt í þessu Mílumálshavaríi sem tengdist því að það mál var ekki klárað á síðasta þingi. Hvernig kom það nú til að það mál kláraðist ekki? Það var ekki út af viðspyrnu stjórnarandstöðuflokkanna. Stjórnarandstöðuflokkarnir má segja að hafi bara verið í öllum meginatriðum býsna sáttir við það hvernig málið leit orðið út. Nei, það dó af því að Vinstri grænir, samkvæmt þeim upplýsingum sem þingmönnum bárust, stoppuðu málið á lokametrunum. Stjórnarfrumvarp, frumvarp sem Vinstri grænir voru búnir að samþykkja í ríkisstjórn og þingflokki en svo á lokametrunum dó það drottni sínum án þess að það fengist nokkurn tímann almennilega útskýrt hvers vegna það var.

Í því ljósi má kannski segja að þetta sé bara meira af því sama og við sátum undir á liðnu kjörtímabili. Málum sem flokkarnir koma sér ekki saman um er einhvern veginn hent út úr ríkisstjórninni. Þar nenna ráðherrarnir ekki þessu veseni og svo fara málin inn í þingflokkana. Þar eru gerðir einhverjir óljósir fyrirvarar eins og síðbúnir fyrirvarar Framsóknarflokksins við hálendisþjóðgarðinn á sínum tíma. En ég man samt ekki eftir því að þinginu hafi verið falið að aðlaga mál ríkisstjórnarinnar að stefnu ríkisstjórnar. Það kannast ég ekki við.