Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur andsvarið. Hv. þingmaður spyr hér spurningar sem hefur verið vinsælt að velta fyrir sér, þ.e. hvort fyrirvari hafi verið gerður við þetta mál í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða í öðrum flokkum. Það eru engir fyrirvarar við það að þetta mál komi hér fram og fari í þinglega meðferð en einstaka þingmenn kunna einmitt að hafa ákveðinn fyrirvara við að það verði afgreitt óbreytt. Það er auðvitað mjög algengt að þingmenn setji þann fyrirvara að vilja fá mál í þinglega meðferð og kunni að hafa einhverjar skoðanir á því að það gæti breyst í þeim aðstæðum. Það sem einna helst gæti breyst, því hv. þingmaður þekkir auðvitað mjög vel að þetta er flókin þingsályktunartillaga ef breyta á miklu, eina breytingin sem hægt væri að sjá fyrir sér, er að færa einhvern veginn á milli flokka. Ég sagði það hér áðan að ég sæi það fyrst og fremst felast í því — líka til að ná sátt í málið, til að hægt væri að afgreiða það — að hægt væri að færa á milli flokka. Hv. þingmanni kann að finnast það ankannalegt og ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta mjög vel. En það er samt sem áður þannig að það eru skiptar skoðanir á því á hverju matið byggir og hvort mögulega kunni að hafa komið fram einhverjar breytingar, t.d. í tækni eða þekkingu í matinu sjálfu, sem gætu leitt það af sér að ástæða væri til þess að taka kosti úr öðrum flokknum og segja: Setjum þetta í bið, sjáum til og förum svo aftur í matið á því síðar hvort æskilegt sé að vernda eða virkja viðkomandi kost.