Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er auðvitað þannig að flutningskerfið þarf að virka og við hljótum öll að vera sammála um það. En við vitum líka hvers vegna pattstaðan er fyrir hendi. Og nú vil ég taka það skýrt fram að það er ekki stefna Samfylkingarinnar að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum en sú reynsla sem ég hef aflað mér í þessum málaflokki í gegnum árin hefur fært mér heim sanninn um að sumt þurfum við að skipuleggja á landsvísu. Við þurfum að ræða það af fullri alvöru hvernig við gerum það vegna þess að þetta varðar öryggi allra landsmanna, raforkuöryggi, sem er grundvöllur þess að við getum búið í landinu.

Mig langaði til að koma því hér áleiðis, og mér heyrðist í fréttum fyrr í vikunni hæstv. innviðaráðherra alla vega ámálga þá nálgun — en verkefnið er líka þannig að við erum að selja um 85% af allri orku sem framleidd er hér á landi til stóriðju. Það er ákvörðun sem hefur verið tekin, ekki alltaf hugsuð til enda. En gott og vel. Við fáum sem betur fer hærra verð fyrir þessa orku núna en við gerðum í gamla daga. Það sem við þurfum að tryggja er að almenningur, að heimilin í landinu og í raun öll önnur fyrirtæki en stóriðja hafi aðgang að öruggri orku einmitt til að byggja upp. Það verður ekki gert nema stjórnvöld, við hér og framkvæmdarvaldið, setjum þá lagaumgjörð og þá forgangsröðun að tryggt sé að aðgangur sé að orku fyrir hin 15%. Það má ekki gerast að stóriðjan þrengi svo að restinni af efnahagslífinu, ef maður orðar það þannig, að ekki sé aðgangur að orku. Já, auðvitað þarf að virkja og það þarf að gera það samkvæmt plani. Það þarf að gera það samkvæmt rammaáætlun. En það þarf líka að búa miklu betur um lagaumhverfi þessarar orkunotkunar og forgangsröðunina.