Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið, þetta er nefnilega svo áhugavert. Ég tek undir það að þetta er umræða sem mikilvægt er að taka ef ekki á undan, eins og óskandi hefði verið, þá a.m.k. í samhengi við þetta allt. Mér hefur þótt umræðan fara mjög mikið út í það sem hv. þingmaður nefnir, og ég gerði í ræðu minni, að það sem varðar öryggi og jafnræði íbúa landsins sé eitthvað sem einhverjir aðrir eigi að sjá um, hvort sem það væru þá raforkuframleiðendur eða þeir sem sjá um dreifikerfið. Það er ekki þannig. Það erum við sem eigum að tryggja það. Eins og ég segi höfum við úrræði til þess. Skattkerfið er ein leið og kannski beinasta leiðin, einfaldasta, einhvers konar mótvægisframlög. Við veitum slík framlög beint til heimila en sveitarfélög á köldum svæðum búa ekki við slíkt og þurfa síðan að framselja ýmsa þjónustu til heimila á þessu háa verði og þetta veit þingmaður allt.

Það er eitt áhugavert í þessu, af því að hv. þingmaður nefndi þriðja orkupakkann — ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki nákvæmlega á því, eftir samþykkt pakkans, eftir langa meðgöngu, hvað skilaði sér síðan af þessum neytendaverndarmálum inn í vinnuna, hvernig umhverfi okkar hefur raunverulega breyst. Ég ætla bara að leyfa mér að kasta bolta á móti og spyrja: Kannast hv. þingmaður við að það hafi skilað sér á einhvern hátt?