Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

börn á biðlistum.

[15:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem var í þremur liðum. Já, það er alvarleg staða þegar kemur að þriðja stigs úrræðum og það hefur legið fyrir. Þingmaðurinn spyr hvort fram hafi farið einhver könnun á því hver staðan væri. Í lok síðasta kjörtímabils hafði talsvert mikil grunnvinna farið fram á milli heilbrigðisráðuneytis og þáverandi félagsmálaráðuneytis til að greina þessa biðlista, skoða hvernig þeir sköruðust; skoða þá hópa sem þar væru og vinna ákveðinn grunn að aðgerðum til að vinna á vandanum. Við höfum átt mjög gott samtal, ég og heilbrigðisráðherra, vegna þess að þetta tengist að verulegu leyti þeim málaflokkum sem heyra undir núverandi mennta- og barnamálaráðuneyti annars vegar og heilbrigðisráðuneyti hins vegar, með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að koma inn í þetta. Þetta er líka eitt af því sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði til í fyrirspurn áðan gagnvart félagslegum aðgerðum vegna þess að þetta er eitt af því sem hefur vaxið í Covid-faraldrinum og mikilvægt að gripið sé inn í. En þetta er líka hluti af vinnu við grundvallarskipulagsbreytingar í málefnum barna vegna þess að allt eru þetta þriðja stigs úrræði og það sem við reiknum með er að þegar við innleiðum farsældarlöggjöfina, með aukna áherslu á fyrsta og annars stigs úrræði, muni að einhverju leyti draga úr þörfinni fyrir þriðja stigs úrræði, auk þess sem aukið samtal á milli kerfa mun líka draga úr þrýstingnum þarna á. En þarna þarf að bregðast við. Við höfum verið með vinnu í gangi við það og ég vænti þess að við förum að sjá aðgerðir koma fram í því efni. En missum ekki sjónar á því að það er mikilvægt að bregðast við áfram á fyrsta og öðru stigi vegna þess að til lengri tíma dregur það úr þörfinni fyrir þriðja stigs úrræði.