Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

sérhæfð búsetuúrræði fyrir börn.

[15:49]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við byggjum upp öflug og sértæk úrræði. Við gerum það í samstarfi við sveitarfélög og við þurfum að vera með fleiri úrræði hvað varðar börn, ekki bara með fjölþættan vanda heldur líka úrræði sem grípa fyrr vegna þess að þau skila gríðarlegri arðsemi til lengri tíma litið, ekki bara mikilvægi þess gagnvart viðkomandi fjölskyldum og einstaklingum og börnum heldur er þetta ofboðslega arðsöm fjárfesting. Varðandi fjármögnun þessara úrræða þá verðum við einfaldlega að vinna þá vinnu með Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða landssamtökum sveitarfélaga og einstaka sveitarfélögum. Sveitarfélögin munu líka þurfa að koma inn í þá vinnu vegna þess að við reiknuðum út í farsældarvinnunni að arðsemin kemur líka fram hjá sveitarfélögum eins og hjá ríkinu. Það er einfaldlega vinna sem við þurfum að flýta og gera í samfloti við innleiðingu farsældarlöggjafarinnar og ég vænti þess að við förum að sjá glitta í fyrstu afurðir þess.