Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil tileinka þessa fyrstu ræðu mína landsbyggðinni, áherslumálum sem brýnt er að vinna að og mikilvægi þess að landsbyggðin eigi sína rödd, sterka rödd. Í aðdraganda alþingiskosninga komu áherslur íbúa á landsbyggðinni glöggt fram. Öflugar samgöngur og aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónustu við landsbyggðina þarf að stórbæta. Það er hægt á mjög hagkvæman hátt með fjarheilbrigðisþjónustu, auknu fjármagni í nauðsynlegan tækjakost og því að auka viðveru sérfræðinga í heimabyggð. Þessu þarf að koma í verk.

Í Reykjavík er sérhæfða heilbrigðisþjónustan staðsett. Bregðast þarf því skjótt við veikindum í kjölfar bráðagreiningar á landsbyggðinni og kalla til sjúkraflug. Þá tekur við biðin eftir sjúkraflugi og flugtíminn suður. Ég hef því gríðarlegar áhyggjur af Reykjavíkurflugvelli. Líf og heilsa okkar landsmanna liggur með þeirri ákvörðun að ekki verði hreyft við honum og ég vil hvetja þingmenn til að vinna að því að hann verði áfram í Vatnsmýrinni, byggt á lögum um almannahagsmuni. Öflugar samgöngubætur eru kostnaðarsamar en vilji meiri hluta íbúa og sveitarstjórnarfólks á landsbyggðinni er að koma að fjármögnuninni með blandaðri leið sem felur í sér að íbúar greiði hálfa framkvæmdina með veggjöldum og ríkið hinn helminginn. Með þessari aðferðafræði má ekki gleymast að fara verður hraðar í uppbyggingu á öflugum samgöngubótum um allt land.

Landsbyggðin er gjöful með gríðarlega verðmætasköpun og aðlaðandi er fyrir fólk og fyrirtæki að setjast þar að. Tryggjum því öflugar samgöngur milli byggðakjarna, góða heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, störf án staðsetningar, áframhaldandi þróun Loftbrúar og nauðsynlega uppbyggingu í takt við verðmætasköpun á svæðinu. Þetta eru mál sem brenna á landsbyggðinni og urðu öll að fá að komast fyrir í fyrstu ræðu minni.