Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að staldra aðeins við og ræða tengslin milli gagnrýninnar sjálfstæðrar blaðamennsku og lýðræðis. Svo að ég vitni í Nelson Mandela, með leyfi forseta, eru frjálsir fjölmiðlar einn af hornsteinum lýðræðisins. Þegar grafið er undan faglegri blaðamennsku í almannaþágu er það merki um veikara lýðræði. Hæstv. forsætisráðherra fór í gær yfir þann sterka lagalega grundvöll sem hún hefur komið í gegnum þingið til að styrkja stöðu fjölmiðla, til að mynda tillögu um endurskoðun upplýsingalaga, sem var samþykkt 2019, og tillögu um vernd uppljóstrara, sem var samþykkt árið 2020. Ég nefni þetta hér af því að þessi lagalegi grunnur er gríðarlega mikilvæg forsenda þess að hér á landi sé blaðamönnum og öðrum fjölmiðlum fært að stunda sína vinnu, án ótta við afleiðingar, og sjá landsmönnum þannig fyrir flæði upplýsinga um málefni sem varða samfélagið allt; upplýsingum sem geta komið sér illa fyrir valdamikla einstaklinga og fyrirtæki þegar sannleikurinn leiðir eitthvað misjafnt í ljós.

En lög eru túlkunaratriði. Við sjáum það þegar fjórir blaðamenn eru kallaðar til yfirheyrslu lögreglu með réttarstöðu grunaðra. Það er gert með vísun í hegningarlög um kynferðislega friðhelgi sem að mínu viti ætti að vera ljóst að eiga ekki við hér. Svona frjálslegum túlkunum á lagarömmum þurfum við að sporna gegn því að þær skapa óöryggi og ógn fyrir fjölmiðlastéttina, fjórða valdið. Þetta atvik er ástæðan fyrir því að Ungir sósíalistar, Ung Vinstri græn, Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, Ungir jafnaðarmenn og Ungir Píratar efndu til mótmæla gegn aðför að fjölmiðlafólki síðastliðinn laugardag. Á næstu dögum munu þessar ungliðahreyfingar, auk ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, koma saman og gefa út sameiginlega yfirlýsingu. Þetta er til fyrirmyndar og vil ég nýta vettvanginn til að biðla til þingheims að við myndum skjaldborg um að lög séu túlkuð með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.