Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:11]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp á þingskjali 589 sem er 349. mál um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Hér á eftir fer framsöguræða mín um málið. Þetta frumvarp varðar veiðistjórn á sandkola og hryggleysingjum. Markmið frumvarpsins er að stuðla að verndun og hagkvæmni þeirra stofna sem hér er rætt um og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu á sama hátt og á við um nýtingu annarra nytjastofna. Markmiðið með þessu frumvarpi er að koma á betri stjórn veiða á hryggleysingjum og sandkola í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og stuðla að meiri hagkvæmni við þessar veiðar.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að heimilað verði að úthluta aflahlutdeild til veiða á nytjastofnum hryggleysingja með staðbundnum hætti. Þar sem gildandi lög gera ekki ráð fyrir staðbundinni aflamarksstýringu þessara nytjastofna er með frumvarpinu lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að úthluta aflahlutdeild þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert afmarkað veiðisvæði, enda eru þessir nytjastofnar lítt hreyfanlegir og tekur aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar mið af því.

Í öðru lagi er lagt til að tekin verði upp aflamagnsstjórn á sæbjúgum, sem er tegund hryggleysingja. Með því að stjórna veiðum með aflamarki er sjálfbær nýting stofnanna betur tryggð þar sem úthlutun byggist á vísindalegum grunni. Aukin sókn hefur verið í veiðar sem getur leitt til kapphlaups þegar lokunum er beitt í kjölfar þess að hámarksafla samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er náð. Þá er tekið á vafa um það hvort ráðherra sé yfir höfuð heimilt að úthluta aflamarki til veiða á sæbjúgum og lagastoð fyrir því þá tryggð. Þannig er lagt til að við lög um stjórn fiskveiða bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um að við upphaf fiskveiðiársins 2022–2023 skuli setja sjálfstæða aflahlutdeild í sæbjúgum á hverju veiðisvæði sem skilgreint er í reglugerð um veiðar á sæbjúgum. Auk þess er lagt til að aflahlutdeild í sandkola verði afmörkuð nánar en í dag eru veiðar á sandkola frjálsar frá Snæfellsnesi norður um og að Eystrahorni en lúta aflamagnsstjórn utan þess svæðis.

Tillagan er í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem hefur lagt til að öll sandkolamið verði undir aflamarki. Þannig er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði við lög um stjórn fiskveiða sem mæli fyrir um hlutdeildarsetningu sandkola í allri landhelginni. Síðustu ár hefur sókn í sandkola verið talsvert langt umfram veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en fiskveiðiárið 2020–2021 var landaður sandkoli 540 tonn en ráðgjöf hljóðaði upp á 319 tonn. Blandað kerfi frjálsra veiða og aflahlutdeildar hefur því ekki virkað sem skyldi til að tryggja að veiðar séu innan vísindalegrar ráðgjafar í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Mál þetta kom áður fram á 151. löggjafarþingi, hér vetur sem leið, en varð ekki útrætt í atvinnuveganefnd. Frumvarpið er mikið breytt, svo að því sé til haga haldið, þar sem úr frumvarpinu hafa verið felld ákvæði sem vörðuðu veiðistjórn grásleppu en um hana voru skoðanir skiptar í nefndinni og í umsögnum sem bárust. Það er von mín að frumvarpið muni nú ná fram að ganga enda um framfaramál að ræða fyrir veiðistjórn á hryggleysingjum og sandkola.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni frumvarpsins sem slíks en vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir þar sem ítarlega er fjallað um efni frumvarpsins. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.