Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:23]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil nú kannski í fyrsta lagi segja að það er mín afstaða sem ráðherra sjávarútvegsmála, en ekki síður bara almennt sem þátttakandi í löggjöf á Alþingi, að fara að vísindalegri ráðgjöf hvað varðar úthlutun aflaheimilda. Ég held að það sé ekki hjálplegt að efast um að það sé heilvita fólk sem ráðleggur okkur í þeim efnum.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um að hér séum við að endurtaka söguna úr Verbúðinni, eins og hv. þingmaður komst að orði, og afhenda verðmæti endurgjaldslaust er á þessu tvennu grundvallarmunur. Sandkoli var hlutdeildarsettur fyrir aldarfjórðungi á hluta landsins en veiðar frjálsar utan þess svæðis. Síðustu ár hefur aflinn þar sem veiðar eru frjálsar aukist mjög þannig að við því þarf að bregðast. Þetta er staðan sem við horfumst í augu við og þarf að bregðast við. Það skiptir mjög miklu máli líka þegar við erum að tala um aflamarksstjórn — þó að ég greini það af orðum hv. þingmanns að hann geri ekki ágreining um til að mynda aflamarksstjórn á sæbjúgum nema hann vilji leiðrétta það í sínu seinna andsvari — að það eru mjög mörg atriði sem greina í sundur þar sem við erum að tala um staðbundna hlutdeildarsetningu sem mun þá ekki undir nokkrum kringumstæðum leiða til byggðaröskunar þar sem þessar heimildir eru staðbundnar.