Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:47]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið eða hugvekjuna öllu heldur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum það í huga, og ég verð að segja það án ábyrgðar að mér sýnist, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, að makríll sem var úthlutað 2019, t.d. til smábáta, 6.000 tonn, hafi allur verður seldur til annars aðila. Auðvitað hafa aðstæður við makrílveiðar breyst mjög mikið. Hér var makríll vaðandi í hverjum flóa, hverjum firði, hverri vík, uppi í landsteinum en nú er tveggja og hálfs sólarhrings stím norður í Smugu til að veiða hann og þangað fer auðvitað enginn smábátur. Þá er eina leiðin til að búa til einhver verðmæti úr þessu að selja þetta frá sér. Ég held að það sé óheppilega fljótt að gerast að við séum að búa til þessi verðmæti og þau verða síðan ekki að verðmæti fyrir þá sjómenn sem höfðu hugsað til þess.

Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að núna stígum við skref, hænuskref, til þess að binda þetta aðeins og festa í sessi að það verði einhvers konar takmörk á úthlutuðum aflaheimildum til að byrja með. Ég held að í leiðinni þurfi hæstv. ráðherra að skoða það með okkur þegar koma nýir deilistofnar inn í landhelgina — og það þarf í rauninni ekkert að hafa fyrir því að finna þá, þeir synda bara á okkur eins og makríllinn gerði — að þá þarf auðvitað að vera einhvers konar kerfi sem segir til um hvers konar verðmæti það eru, hver á þau og hver greiðir fyrir þau ef hann ætlar að nýta þau.