Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún minntist á óréttlæti í sjávarútveginum og breytingar á stjórnarskránni og mig langar að spyrja hv. þingmann. Segjum að það komi auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána, telur hún að það muni leiða til þess þá að núverandi kvótakerfi, núverandi stjórn fiskveiða muni brjóta í bága við stjórnarskrána, annaðhvort í heild eða að hluta? Mun það leysa eitthvað í þessu elífðardeilumáli? Kvótakerfið er algerlega pólitískt mál, tel ég, og það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á þessu.

Hún kom í andsvör við mig áðan og ég get ekki stillt mig um að svara varðandi íslensku krónuna og evruna. Áður fyrr var það þannig að útgerðin, fiskvinnslan sem var að fara á hausinn, fór í þingmanninn sem fór ráðherrann sem fór í seðlabankastjóra sem felldi gengið og gerði okkur öll fátækari, um 10% ef gengið var fellt um 10%. Í dag, og þetta frumvarp hér virðist benda til þess, er það þannig að ef það gengur illa fer útgerðin í þingmanninn, í ráðherrann, sem kemur með kvótasetningu. Það virðist vera svolítið þannig varðandi tegundir sem eiga eftir að fara í kvóta. Ef það gefur á bátinn er þetta leiðin sem þeir fara.

Saga íslensku krónunnar er að miklu leyti saga stjórnkerfisins sem var fyrir kvótasetningu og við höfum ekki enn þá náð að vinna okkur út úr því.