Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og fyrir að draga strax fram í upphafi þessarar umræðu þessi orð um að fjármálaráð hafi ekki séð stjórnarsáttmálann endurspeglast í stefnunni. Mér finnast það að því leyti vera — ég veit ekki hvernig ég á að orða það, virðulegur forseti, bara kerfislæg mistök eða einhver túlkunaratriði varðandi það hvernig við ræðum fjármálastefnu til næstu ára og síðan álit fjármálaráðs að því leyti að grunnþáttur þessarar stefnu er að við ætlum að vaxa og við ætlum að efla hér efnahagslífið. Efnahagslífið mun stækka. Þá verður að hafa í huga spurninguna: Hvernig ætlið þið þá að gera allt það sem þið segist ætla að gera í stjórnarsáttmálanum? Það er það sem spurning hv. þingmanns snýst um. Með stækkandi efnahag, með meiri landsframleiðslu aukast tekjur ríkissjóðs og þá verður að setja það í samhengi við þær viðbætur sem settar hafa verið í flest grunnkerfi hins opinbera á undanförnum árum og það er (Forseti hringir.) frá þeim stað sem við byggjum útgjöldin. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem segir að með hækkandi landsframleiðslu þurfi fleiri krónur til að ná fram sömu markmiðum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á styttan ræðutíma vegna þess að fjórir þingmenn hafa óskað eftir því að veita andsvar.)