Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður var að fara með þessari fyrirspurn. Þingmaðurinn sem hér stendur vill að fjármálastefnan styðji við peningastöðugleikann. Það er beittasta vopnið sem við höfum til að bregðast við vaxandi verðbólgu; að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum. Það er í raun og veru það svar sem ég get gefið í umræðu um fjármálastefnu. Við erum ekki að ræða hér fjármálaáætlun eða fjárlög að þessu sinni. Ástæður verðbólgunnar núna þurfum við ekkert að ræða í andsvörum eða stuttum ræðum hér um fjármálastefnu og hv. fjárlaganefnd mun sérstaklega ræða á fundum sínum um húsnæðismarkaðinn og helstu orsakir stöðunnar þar. Um þá spurningu hv. þingmanns hvort ég vilji að ríkisstjórnin beiti sér fyrir ákveðinni niðurstöðu í kjaraviðræðum ætla ég ekki að svara með stuttum hætti. En meginatriðið er þetta: Í fjármálastefnu eru hinar stóru útlínur um markmið og innan þeirra markmiða held ég að væri best að halda sig til að halda hérna efnahagslegum stöðugleika.