Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Þegar við ræðum fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er nauðsynlegt að skilja hvað fjármálastefna er, hvað hún á að vera. Hvað á þetta plagg að gera? Til hvers er það? Það er frekar augljóst út frá bæði ályktuninni um fjármálastefnu og greinargerðinni ef maður horfir á lög um opinber fjármál, en ef við reynum að horfa á þetta bara pólitískt séð, hið augljósa, þ.e. hvað fjármálastefnan ætti að gera í öllu samhengi hlutanna, þá er verið að vinna opinber fjármál ofan á þjóðhagsspá til næstu ára. Það er stóra myndin um það hvað er að fara að gerast hérna á næstu árum. Það sem stjórnvöld þurfa að svara er í rauninni: Hvaða áhrif ætla stjórnvöld að hafa á stóru myndina efnahagslega séð? Hver er stefna stjórnvalda gagnvart samneyslunni, gagnvart opinberum fjárfestingum? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að hafa áhrif á stóru stærðirnar í efnahagslegu samhengi? Lög um opinber fjármál eru mjög skýr með þetta. Það á einfaldlega að fylgja greinargerð um hvernig grunngildum verður fylgt, bæði hvað varðar stefnumörkun um þróun gjalda og skattstefnu og aðra tekjuöflun. Mjög einfalt. Það á að vera skatt- og tekjustefna. Í ályktuninni sjálfri, greinargerðinni þar, er þetta ein blaðsíða hvort um sig, tekjustefnan ein blaðsíða, gjaldastefnan ein blaðsíða. En innihald hennar á ekki að vera neitt annað en helstu áskoranir í tekju- og gjaldastefnu, ekki í raun og veru hvað á að gera. Þetta er dálítið merkilegt.

Að grunni til hljótum við að þurfa að pæla í því hverjar áskoranirnar fram undan eru, t.d. á húsnæðismarkaði, þegar þær eru af þeirri stærð að það hefur áhrif á verðbólgu í því magni sem við sjáum núna. Til dæmis hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 9% — munið þessa tölu, tæp 9% — frá því að faraldurinn hófst. Meiri hlutinn setur hérna fram uppreiknað í tölum hvað þetta þýðir í milljörðum króna, A-hluti hins opinbera og heildarafkoma o.s.frv. Ef maður fer aðeins lengra með þá hugsun, bara smá, og skoðar hver hlutdeild ríkissjóðs er í því og miðað við hagvöxt á næstu árum hver verg landsframleiðsla á næstu árum verður — því er bara sleppt og ekki sett þarna inn. Dálítið merkilegt. En hvert er stóra samhengið? Hver verður verg landsframleiðsla á árum fjármálastefnunnar? Þær tölur eru ekki til. Merkilegt. Það er hægt að fara í þjóðhagsspána og þá kemur hún fram á verðgildi hvers árs. Það er gjörsamlega ósamanburðarhæft við þau gögn sem við erum að vinna með. Við þurfum þá að mínusa burt verðbólguna og þess háttar og þegar maður gerir það miðað við spána fær maður ekki sömu tölur, sem er mjög áhugavert. Við klóruðum okkur aðeins í hausnum yfir því. Hagdeildin hérna hjá okkur hafði samband við Hagstofuna um þetta og við náðum að komast nálægt því, það skeikaði einhverjum 5 milljörðum til eða frá í lok stefnunnar. Þá þýðir þetta að verg landsframleiðsla verður um 3.932 milljarðar árið 2026 og mun hafa hækkað um 367 milljarða á því árabili, nokkuð gott. Við erum að glíma við halla upp á tæpa 200 milljarða þannig að plús upp á 367 milljarða vegur það ágætlega upp. Við erum komin í rúmlega 160 milljarða í plús miðað við hallann sem við erum að glíma við 2022, ekki satt? Nei, þá eigum við auðvitað eftir að taka tillit til verðbólgunnar á sama tíma. Þarna er bara tekið tillit til þess hversu mikið landsframleiðslan hækkar miðað við hagvöxt, ekki raunverulegt verðgildi, þetta er sem sagt á verðgildi ársins 2022. Hækkunin sem kemur á móti þarna er um 2,8%, 2,3%, 2,4% í hagvexti. Útgjöld eiga að hækka á sama tíma um tæplega 1%, sem sagt reiknuð raunútgjöld. Það eru um 36 milljarðar aukalega í lok tímabilsins.

Það sem er áhugavert við þetta er að ef verðbólgan verður hærri en hagvextinum nemur þá þarf ekki nema um 9% á tímabilinu til að eyða þessum hagvexti út hvað raungildi varðar. Það eru þessi 9% sem eru búin að vera í mínus í hækkun vísitölu neysluverðs síðan faraldurinn hófst. Við erum tala um svipaða stærðargráðu þar á fleiri árum hins vegar. Þetta gerðist á mjög fáum árum enda hallinn þó nokkuð mikill. Spennan hins vegar er sögð vera þó nokkuð mikil núna á verðbólguna þannig að það er ekkert ólíklegt, segir í umfjöllun um verðbólguna í nefndaráliti meiri hlutans, að það sé einmitt verðbólguspenna í kortunum og hún eigi eftir að koma mögulega sterkar fram en spár gerðu ráð fyrir.

Það er annað áhugavert í tölum sem koma fram nefndaráliti meiri hlutans þegar fjallað er um skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þar er gert ráð fyrir því að skuldir sveitarfélaga aukist hlutfallslega meira en skuldir ríkissjóðs. Mér finnst það mjög áhugaverð stefna, sérstaklega miðað við umræður á undanförnum mörgum árum um vandamál í tekjustofnaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins þar sem ýmis verkefni hafa verið færð til sveitarfélaga, eins og þegar grunnskólarnir voru færðir yfir, síðan er lögum breytt og auknar skyldur settar á rekstur skóla sem kostar þá meira án þess að það sé uppfært í tekjustofninum sem fluttist líka þarna á milli. Sama á við um þjónustu við fatlaða. Það eru þó nokkrir milljarðar í halla þar í dag. Að hluta til einmitt af því að kröfurnar hafa aukist en líka vegna þess að sveitarfélögin hafa einfaldlega ekki haft samvisku til að sinna þeim málaflokki eins illa og ríkið gerði. Sveitarfélögin lögðu einfaldlega meira í að sinna þessari þjónustu, sinna því betur og nær þeim réttindum sem fatlað fólk á að hafa samkvæmt lögum en nær því samt ekki af því að tekjustofnaskiptingin er rosalega röng hvað sveitarfélögin varðar. Ofan á það er ætlast til þess að sveitarfélögin skuldsetji sig hlutfallslega meira en ríkissjóður í þessari fjármálastefnu. Og þetta er stefna. Hún er ekki sögð með orðum en hún kemur fram í tölum. Það munar ekki miklu, það munar hlutfallslega prósenti, en það er samt sá munur þrátt fyrir allt.

Geymum þetta aðeins og pælum í stóra samhenginu. Horfum einfaldlega á grunnframfærslu samkvæmt reiknivél Stjórnarráðsins, hver grunnframfærsla fólks er miðað við lágmarkslaun hjá VR, grunntaxtann þar. Þá reiknum við okkur yfir í framfærsluna á móti; hver er kostnaður vegna húsnæðis og ýmislegs svoleiðis? Sá sem er á lágmarkslaunum, er í þriðja eða fjórða tekjuþrepinu, er í mínus í lok hvers mánaðar miðað við framfærsluviðmið ríkisins. Það sem er áhugavert í því samhengi er þegar við skoðum þessa blessuðu vísitölu neysluverðs, verðbólguna. Hún er samsett úr hinum ýmsu vísitölum, þar á meðal húsnæðis. Skoðum undirliði vísitölu neysluverðs. Í heildina hefur hún hækkað um tæp 9% á þessu tímabili, eins og ég nefndi áðan, en matvæli hafa hækkað um 10%, húsnæðiskostnaður og rekstur ökutækja um rúmlega 12% og tryggingar um tæp 10,5%. Þetta þýðir einfaldlega verri lífsgæði, sérstaklega fyrir þá hópa þar sem matvæla- og húsnæðiskostnaður eru helstu kostnaðarliðir. Fyrir þá hópa er verðbólgan í reynd rúmlega 10% en ekki 9% eins og fyrir flesta aðra sem eru þá með hærri tekjur. Það vantar nefnilega allt svoleiðis í allar greiningar. Við fáum alltaf fjármálaráðherra upp í ræðustól Alþingis sem segir: Kaupmátturinn er frábær, hann hefur hækkað rosalega mikið og aldrei verið betri. En hvernig skiptist hann á milli mismunandi tekjuhópa? Þar komum við einfaldlega inn á það að launataxtar miðað við framfærslukostnað skila fólki í mínus, þannig að einhvers staðar þarf það að herða sultarólina og er undir framfærsluviðmiðum stjórnvalda. Það er staðan í dag. Þá myndi maður vilja að fjármálastefna stjórnvalda, tekjustefna og gjaldastefna, myndi á einhvern hátt fjalla um þessa áskorun og útskýra fyrir okkur hvernig eigi að leysa það vandamál. Hvernig á að leysa húsnæðisvandann? Það stendur ekki í þessari stefnu. Hvernig á að leysa framfærslu lægri tekjuhópa? Það stendur ekki í þessari fjármálastefnu. Hún er gjörsamlega ren þegar kemur að því.

Tökum dæmi um svar við spurningunni: Hvað er fjármálastefna? Þar á að grunngildamiða og þar á að vera stefnumörkun um þróun gjalda og skattstefnu. Það á að miða við fimm grunngildi; sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Í þessari greinargerð eru kaflar sem heita Tekjustefna og Gjaldastefna og þar birtist þessi stefnumörkun en það er ekki gerð minnsta tilraun til að rökstyðja hvernig grunngildum verður fylgt með þessari tekju- og gjaldastefnu. Að lágmarki þyrfti að útskýra áhrif tekju- og gjaldastefnu stjórnvalda á þessa grunnþætti þjóðhagsspár og hvaða áhrif stefna stjórnvalda ætti að hafa á þá þætti. Er t.d. stefna stjórnvalda að auka, minnka eða halda opinberri fjárfestingu óbreyttri? Ég hef ekki hugmynd um það. Það er nefnt að undanfarið hafi verið aukið við opinbera fjárfestingu þannig að hún er komin upp í meðaltal áranna 1998–2020 en það segir ekkert um það hvað eigi að gera á næstu fimm árum, bara hvað er búið að gera. Þá erum við að segja að opinber fjárfestingarstefna sé búin að vera í algerri lægð og sé bara rétt komin upp í meðaltalið núna. Það er staðan núna.

Segjum sem svo að stjórnvöld setji sér stefnu um að ná jákvæðum vöru- og þjónustujöfnuði og í gjaldastefnu stjórnvalda væri t.d. gert ráð fyrir aukinni áherslu á hugverkaiðnað til útflutnings og orkuskipti til að minnka innflutning á olíu. Það eru einhverjir 100 milljarðar þar. Ef við þyrftum ekki að flytja inn neina olíu myndum við spara 100 milljarða á ári í gjaldeyristekjur. Það munar nú um minna. Stefna um jákvæðan vöru- og þjónustujöfnuð stuðlar að sjálfbærni gjaldmiðils og heldur stöðugleika með því að lágmarka innflutta verðbólgu. Það er varfærin stefna til að lágmarka áhættu gagnvart ytri efnahagsþróun. Slík stefna stuðlar að festu til framtíðar þar sem síður þarf að bregðast við ytri efnahagssveiflum. Til að uppfylla grunngildi um gagnsæi væru sett fram skýr markmið um áhrif stefnunnar á hverju ári á vöru- og þjónustujöfnuð. Þetta er bara örstutt dæmi um það hvernig er reynt að nálgast það að rökstyðja markmið með stefnu stjórnvalda gagnvart grunngildunum. Að sjálfsögðu býst ég fastlega við því að fagleg stjórnsýsla skili þarna nánari tölum og lengri og ítarlegri útskýringum, þetta er aðeins stutt lýsing, stikkorð, á því hvernig þetta gæti byrjað að líta út. En það er ekki einu sinni reynt að fara þetta langt í stefnunni.

Hver er þá fjármálastefna ríkisstjórnarinnar? Í tekjustefnu ríkisstjórnarinnar er fjallað um fimm atriði. Tvö af þeim eru sett fram sem langtímavandamál sem ríkisstjórnin hyggst ekki gera neitt í á tíma þessarar fjármálastefnu, að því er mér sýnist. Það þýðir að þrjú áherslumál eru til staðar í tekjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki gagnrýni á fjölda áhersluatriða heldur á innihald og rökstuðning þeirra. Það getur verið í fína lagi að það séu bara þrjú áhersluatriði, ekkert að því. En það vantar innihald og rökstuðning, það er það sem er vandamálið.

Fyrsta stefnumarkmið stjórnvalda í tekjumálum er framtíðarvandamál, með leyfi forseta: „Á komandi árum verður áfram unnið að endurbótum á skattkerfinu þannig að tekjuöflun hins opinbera nægi til að standa undir verkefnum þess.“ — sem segir bókstaflega að núna geri hún það ekki. Það er alveg margstaðfest í álitum fjármálaráðs frá fyrri árum að við séum með ósjálfbæra tekjustefnu miðað við útgjaldastefnu, ekkert flóknara en það. Þetta stendur skýrum stöfum hérna. Þetta er áskorun vegna þess að núverandi kerfi tekju og gjalda er ósjálfbært og það ætti ekki að koma neinum á óvart. Í fyrirspurnum í störfum nefndarinnar kom skýrt fram hjá fulltrúum fjármálaráðuneytis að það væri ekki von á skattbreytingum vegna þessarar áskorunar á tímabili þessarar fjármálastefnu.

Annað stefnumarkmiðið fjallar um samdrátt í tekjum ríkisins af samgöngum: „Stefnt er að heildarendurskoðun á þessum hluta skattkerfisins til að tryggja sambærilegar skatttekjur af ökutækjum og á árunum 2010–2017.“ Þetta er nokkuð nákvæm stefna en engin tilraun gerð til þess að útskýra áhrifin í þjóðhagslegu samhengi, ekki nein. Við vitum líka að álag hefur aukist á samgöngur og vegi sem þarfnast þá meira viðhalds og ýmislegs svoleiðis, en það á samt ekki að ná þeirri þörf heldur bara eins og hún var 2010–2017. Áhugavert.

Þriðja stefnumarkmiðið er að, með leyfi forseta, „… draga úr undanskotum og styrkja með því tekjustofna hins opinbera.“ Þetta á að gera einmitt með aukinni stafvæðingu og alþjóðlegri samvinnu. Fínt markmið en við höfum enga hugmynd um þjóðhagslegt umfang þessarar stefnu né hvernig hún er grunngildamiðuð. Hvaða umfang erum við að tala um hérna? Hefur það einhver áhrif? Er þetta dropi í hafið? Eða er þetta í alvörunni í þeim stærðarhlutföllum að það mun hafa áhrif á möguleika til þess að hækka eða lækka tekjuskatt eða hækka persónuafslátt eða hvað, eða einfaldlega fjármagna heilbrigðiskerfið sem vantar þá líka? Í hvaða stærðarhlutföllum erum við að tala hérna?

Fjórða áskorunin er síðan loftslagsmálin. Þar á að notast við jákvæða hvata og gjaldtöku af losun gróðurhúsalofttegunda. Aftur ekkert umfang eða grunngildamiðaður rökstuðningur. Tæknilega séð væri hægt að hækka t.d. kolefnisgjald um 0,1% og segja: Við náðum þessu markmiði, við hækkuðum gjöld á þá sem losa, við erum búin að ná stefnunni, jeij. Það er vandamálið þegar það er ekki sagt hvert umfangið er, þá er hægt að gera hvað sem er til að geta sagt: Við náðum því, við sögðumst ætla að gera þetta og náðum því, sjáið þið bara. Tæknilega séð er það rétt og það eru þessir tæknilegu útúrsnúningar sem maður er alltaf að sjá hérna, þeir eru gegnumgangandi. En lög um opinber fjármál segja einfaldlega að stjórnvöld eigi að leggja fram mælanleg markmið til að segja hverju stjórnvöld ætla að ná, hvaða vörðu, til þess að það sé hægt að meta eftir á hvort fénu var vel varið, hvort þetta var góð aðgerð fyrir almannafé, hvort hægt sé að gera eitthvað betur, öðruvísi. Bara þannig lærum við á það hvernig tillögur framkvæmdarvaldsins skila sér. Við erum búin að glíma við það allan faraldur að það hefur verið hrúgað inn alls konar mismunandi verkfærum til að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum hingað og þangað. Hvaða áhrif höfðu þau í raun og veru? Við höfum ekki hugmynd um það. Það er búið að hella hundruðum milljarða í alls konar aðgerðir, og hvað? Var þessi aðgerð betri en hin? Ekki hugmynd. Hefði einhver önnur aðgerð verið betri en það sem var gert? Ekki hugmynd. Fullt af svoleiðis, ekkert nema svoleiðis.

Síðasta stefnumálið er síðan hvernig skatttekjur eigi að þróast frá skattlagningu á laun yfir á neyslu. Í greinargerð fjármálastefnu segir: „Hér er um að ræða hægfara þróun sem hefur ekki veruleg áhrif á tímabili fjármálastefnunnar …“ Enginn hefur hugmynd um hvað „ekki veruleg áhrif“ þýðir. Líklega er það minna en veruleg áhrif en það gæti þýtt „nokkur áhrif“. Ég hef ekki hugmynd. Ég veit ekkert hvað það er í þjóðhagslegu samhengi. Ekkert grunngildi, engin, ekki neitt. Það er vandamálið við þessa stefnumótunarvinnu hérna hjá ríkisstjórninni. Hún er í alvörunni engin, ekki nein.

Gjaldastefnan er síðan jafn óskýr og tekjustefnan. Þar eru tiltekin tvö framtíðarvandamál og ein aðgerð sem þó er óljóst hvort komi til framkvæmda á tímabili fjármálastefnunnar. Í greinargerð er sagt: „Raunvöxtur útgjalda verði því hóflegur á tímabilinu eða innan við 1% á ári hjá ríkissjóði“. Hérna er tiltekið að öldrun þjóðarinnar og ósjálfbærni ríkissjóðs vegna þess sé framtíðarvandamálið sem fjallað er um í gjaldastefnunni. Sú áskorun lýsir sér í auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu og umönnun og lífeyriskerfið að sjálfsögðu líka. Einnig er fjallað um hvernig vaxandi framlög til örorku- og ellilífeyrisþega og aukin réttindi t.d. í fæðingarorlofi auki ósjálfbærni tilfærslukerfanna. Engin lausn, ekki neitt, ekkert mat á umfangi til þess að mæta réttindum, t.d. með tilliti til þess hver framfærslukostnaður er miðað við þróun á raunkostnaði, ekki neitt.

Hitt framtíðarvandamálið eru skuldbindingar vegna B-deildar LSR og ÍL-sjóðs. Í hversu miklum mæli á að vinna niður þessar skuldbindingar á tímabili fjármálaáætlunarinnar er óljóst, ekki hugmynd. Við erum að tala um rosalegar upphæðir hérna en samt ekki tekið með, höfum það bara til hliðar, geymum það, þetta er seinni tíma vandamál.

Eina aðgerðin sem er lögð til er fjárfesting í tæknilegum innviðum með nýsköpun. Það á stuðla að hagræðingu og bættri þjónustu. Gott og blessað. En aftur ekkert umfang, ekki neitt.

Þessi gjaldastefna er í rauninni stórfurðuleg, sérstaklega miðað við stjórnarsáttmálann sem talar um að „horft verður til frekari eflingar almannaþjónustu og skattalækkana í samræmi við þróun ríkisfjármála“. Það er vissulega sagt að það eigi að efla lífskjör í gjaldastefnunni en það virðist ekki tengjast opinberum útgjöldum á neinn sérstakan hátt. Samneyslan hefur minnkað, opinber fjárfesting hefur minnkað og á bara rétt að ná meðaltali áranna 1998–2020. Það á að búa í haginn fyrir sjálfbærni velferðarkerfisins, hvað sem það þýðir.

Ef við reynum að setja eitthvert samhengi í þessa stefnu má sjá að áskorunin næstu 30 ár er að auka hlutdeild heilbrigðiskerfisins úr 8% af vergri landsframleiðslu í 11% vegna öldrunar þjóðarinnar. Þetta er bara beint úr langtímaáskorunum í efnahagsmálum, það er bara skýrsla sem fjármálaráðherra hefur skilað inn. Þetta þarf að gera. Núverandi kostnaður heilbrigðiskerfisins er u.þ.b. 250 milljarðar á ári en yrði þá 330 milljarðar ef við færum upp í 11% af vergri landsframleiðslu. Raunvöxtur útgjalda á að vera tæpt 1% hins vegar, talað um 0,7% en gerum ráð fyrir 1%. Það þýðir u.þ.b. 10 milljarðar kr. á ári sem það er að aukast hérna. Það þýðir ekki að við séum þá búin að ná 11% viðmiðinu eftir átta ár ef allur raunvöxturinn færi í heilbrigðiskerfið vegna þess að það er einnig gert ráð fyrir bættum lífskjörum með því að vaxa út úr vandanum sem faraldurinn skilur eftir sig, að stækka kökuna, það verður sjálfbær vöxtur og hvað það er sem allar möntrurnar segja um þetta. Það þýðir að ef raunvöxtur hagkerfisins verður meiri en raunvöxtur útgjalda ríkisins þá næst markmið um 11% hlutfall af vergri landsframleiðslu aldrei nema ef skiptingin innan ríkisfjármálanna breytist á móti.

Ef við gefum okkur að hlutfall ríkisútgjalda haldist óbreytt miðað við verga landsframleiðslu þá þýðir það að raunvöxtur hagkerfisins þarf einnig að vera tæplega 1% á ári. Það þýðir 34,8% hækkun á bæði útgjöldum ríkissjóðs og vergri landsframleiðslu á 30 árum. 11% af vergri landsframleiðslu miðað við slíkan raunvöxt eftir 30 ár eru um 445 milljarðar kr. í kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Það þýðir að það þarf ekki að auka raunútgjöld til heilbrigðismála um 80 milljarða kr. heldur um tæplega 200 milljarða kr. á 30 árum. Það eru um 6,7 milljarðar kr. á ári sem er minna en 10 milljarðar kr. sem 1% raunávöxtun skilar. Ef raunávöxtunin er hins vegar 0,7%, eins og hefur verið nefnt, þurfa nær öll útgjöld að renna í heilbrigðiskerfið til þess að ná þeim langtímaviðmiðum sem sett eru fram í fjármálastefnunni. Þarna er eftir lífeyriskerfið og allt annað sem tengist fólksfjölgun og ýmsu slíku.

Þetta virðist allt passa svona næstum allt passa innan þess ramma sem gjaldastefnan setur, rétt svo. En hið opinbera gerir meira. Ef við höldum áfram að greina bara það sem er innan heilbrigðiskerfisins þá átti reiknaður raunvöxtur þar að vera 1,8% til þess að mæta lýðfræðilegum breytingum fyrir árið 2022 en þær fjárheimildir voru felldar brott í síðasta fjárlagafrumvarpi og færðar í rauninni yfir í aðrar, í Betri vinnutíma. Dálítið áhugavert. Þarna er líka gert ráð fyrir síðan 1,5% raunvexti í lyfjakostnaði en greiningar Landspítalans gerir ráð fyrir 10% hækkun þar á næstunni. Einnig var bent á að 1,8% raunvöxturinn væri of lítill og hann þyrfti að vera nær 2,5% til að halda í við lýðfræðilegar breytingar. Allt annað væri hagræðingarkrafa á heilbrigðiskerfi. Þetta kom frá umsagnaraðilum.

Niðurstaðan í þessari laufléttu — það er erfitt að fara með svona mikið af tölum í ræðu — greiningu á gjaldastefnu ríkisstjórnarinnar sýnir að til þess að uppfylla langtímastefnu í heilbrigðismálum vegna öldrunar þjóðarinnar þá þarf öll raunútgjaldaaukningin að renna til heilbrigðismála, ef gert er ráð fyrir tæplega 1% raunaukningu. Vandinn er að hið opinbera er með fleiri verkefni eins og málefni aldraðra, lífeyriskerfið er ekki inni í þessu heilbrigðiskerfi og það eftir að kosta aukalega líka. Ef öldrun þjóðarinnar er hins vegar framtíðaráskorun þá hlýtur það einnig að hafa áhrif á málefni aldraðra í fjárlögum. — Það er mikið eftir hérna. Skelltu mér í aðra ræðu, herra forseti, á mælendaskrá..

Ég ætla að klára nefndarálitið í næstu ræðu og fara yfir í sameiginlega yfirlýsingu 1., 2. og 3. minni hluta og áheyrnarfulltrúa í nefndinni:

Lítið samræmi er á milli stjórnarsáttmála og þess reksturs sem boðaður er í fjármálastefnu út kjörtímabilið. Engin merki eru um eflingu almannaþjónustu og öflugt velferðarkerfi. Meintur vöxtur til velsældar er ekki í takt við þann ramma sem ríkisstjórnin setur sér næstu fjögur árin. Fjármálastefnan fjallar bara um áskoranir en inniheldur engar pólitískar lausnir. Það er nauðsynlegt í því samhengi að næsta fjármálaáætlun, sem kemur út síðar í vor, innihaldi pólitíska stefnumótun varðandi þær afkomubætandi ráðstafanir sem augljóst er að ráðast þarf í á næstu árum miðað við þann ramma sem ríkisstjórnin hefur sniðið sér með fjármálastefnu. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir gagnsæi og raunsæi í framsetningu áætlana og því ljóst að ríkisstjórnin getur ekki skilað auðu í næstu fjármálaáætlun.

Ég verð að segja að ég verð enn og aftur fyrir vonbrigðum með framkvæmd laga um opinber fjármál. Það er einfaldlega ekki verið að sinna þeim. Það þýðir að allt fjárlagaferlið, frá skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum til fjármálastefnu, til fjármálaáætlunar, til fjárlaga og til ársskýrslna ráðherra, er í rauninni gagnslaust af því að í ársskýrslum ráðherra á að útskýra hvernig var farið með fjárheimildir í stefnu stjórnvalda og af hverju það var góð hugmynd að fylgja stefnu stjórnvalda á annað borð. Þegar það er ekki útskýrt, þegar það kemur ekki fram hvaða markmiðum við ætlum að ná, þá er alltaf hægt að útskýra sig fram hjá því og segja bara: Þetta var æðislegt hjá okkur, við náðum öllum okkar markmiðum. Og ef maður spyr á móti: Hvaða markmið voru það? Ja, þessi sem við sögðumst ætla að ná. Nákvæmlega hvaða? Það sést í fjármálaáætlun. Og maður þarf að fletta í einhverju risastóru skjali og kemst svo að því að lokum að það var ekki neitt, það er alltaf þannig. Þannig að ég verð enn og aftur verð fyrir vonbrigðum með framsetningu og útfærslu á lögum um opinber fjármál.