Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, það er einmitt kjarnavandamálið að það er einfaldlega ekki verið að fylgja þeim punktum sem koma fram í lögum um opinber fjármál, um það sem á að skila þinginu, rökstuðningnum sem þingið á að hafa til grundvallar því að taka ákvörðun: Já, þetta er eðlilegur rammi ríkisfjármála fyrir næstu fimm árin, a.m.k., má vera lengur. Eitt af því sem vantar líka, finnst mér, og fjármálaráð gagnrýnir er: Já, það er stefna um að hætta skuldasöfnun, en vinsamlegast útskýrið fyrir okkur hvernig þið ætlið síðan að greiða þær skuldir. Erum við að tala um 30 ár fram í tímann, er það svona viðmiðið? Eða erum við að tala um fimm ár? Við erum ekki með neinar uppsafnaðar eignir eins og stöðugleikaframlögin eftir síðasta hrun sem munu bara koma og greiða upp allan mínusinn. Það er ekkert svoleiðis. Hérna var peningum dælt út í fyrirtæki fram og til baka án þess að það væri einhver eignamyndun á móti hjá ríkinu, eins og var hjá bönkunum síðast.

En tekjustefnan í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er, eins og ég tel upp í nefndaráliti mínu, í raun engin, alla vega ekki í þjóðhagslegum stærðum. Ég myndi vilja sjá stóru — samkvæmt því er engin breyting en það er sagt að það þurfi breytingu. Þá myndi ég vilja sjá hvar þau skref væru stigin. Það virðist eiga að gera það í neyslu, þ.e. færa það frá tekjum yfir í neyslu, en það er sagt að það sé langtímavandamál þannig að það verði líklega ekki gert á tímabili þessarar stefnu. Ég myndi t.d. vilja að náð yrði í meiri arð úr auðlindum, en það er ekki gert.