Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[21:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég verð að viðurkenna að hann byrjaði mjög vel og ég skildi vel það sem hann sagði um arðbæra fjárfestingu. Ég týndi honum samt aðeins þegar leið á andsvarið en það kann vel að vera mér að kenna en ekki hv. þingmanni. Ég þakka honum fyrir að nefna að ég tel skuldir ríkisins áhyggjuefni. Mér finnst að við eigum að standa vörð um ríkissjóð út af því að ég veit að þessar skuldir verða greiddar af komandi kynslóðum. En þá er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það skiptir máli í hvað fjármunirnir fara og ef fjármunirnir fara í arðbærar fjárfestingar er það tækifæri til að búa til tekjur til framtíðar, ég tek heils hugar undir það. Ég nefni hér sem dæmi arðbæra fjárfestingu eins og Sundabraut. Ég nefni líka borgarlínuna sem ég held að sé samfélagslega mjög arðbær fjárfesting. En svo kom hv. þingmaður inn á nýsköpunargeirann, þ.e. þá staðreynd að hann er raunverulega orðinn fjórða stoðin í íslensku efnahagslífi. Hann er það raunverulega, svo segja tölurnar okkur. Það er m.a. vegna þess að ríkið hefur farið í mjög markvissar aðgerðir til að ýta undir nýsköpun í íslensku atvinnulífi og það er ekki bara eitthvert tískuorð eða eitthvað sem ráðherrar eða fyrirmenni nota í fallegum ræðum. Við sjáum raunverulega öflugar atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og tækniþróun og ég held að ríkisstjórnin og hið opinbera hafi gert mjög mikið til að tryggja þá þróun. Ég er algerlega sammála því að við eigum að halda því áfram. Svo er auðvitað alltaf hægt að tala um að við eigum að fara í enn meiri tækniþróun og rannsóknir og nýsköpun. Þarna kemur forgangsröðunin auðvitað til sögunnar, sem við ræðum í tengslum við fjármálaáætlun og fjárlög hvers árs.