152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:47]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Landbúnaður er í rauninni nokkurs konar vistkerfi þegar hann er stundaður í sátt við umhverfið, í sambúð manna og annarra dýra í náttúrunni sem einkennist af gagnkvæmri uppfyllingu þarfa og gagnkvæmri virðingu. Við höfum mörg dæmi um slíkan landbúnað hér á landi. Það kemur fram í umsögn Dýraverndarsambands Íslands við frumvarp Ingu Sæland, um bann við blóðmerahaldi, að sambandið telur að forsendur þess að þessi blóðtaka mera sé forsvaranleg séu m.a. að hrossin séu bandvön og ráði við að fara í bása án þess að fyllast ótta eða streitu. Sé einungis staldrað við þetta atriði þá má strax setja spurningarmerki við þessa starfsemi því aðhér er ekki um að ræða tamdar hryssur upp til hópa. Myndir sem komið hafa fyrir almenningssjónir sýna óásættanlega harðýðgi og skelfingu lostnar skepnur. Þótt vissulega megi ekki draga of altækar ályktanir af þessum myndum þá heldur enginn því fram að þær séu sviðsettar. Þetta er fyrst og fremst óásættanlegt gagnvart þeim skepnum sem hér um ræðir og um orðspor Íslendinga sem hestamannaþjóðar þarf ekki að hafa mörg orð. Sá iðnaður sem við ræðum hér sýnir okkur nútímalandbúnað þar sem hin dýrmætu tengsl manna við aðrar skepnur og náttúruna hafa verið rofin, allt eftir þörfum og forsendum sem verða til á rannsóknarstofum. Allt snýst um hagkvæmni og framleiðni. Við sjáum hér háþróuð vísindi manna og aðferðir við að þróa efni með allri þeirri hugkvæmni sem okkur er gefin og allt þetta hugvit beinist að kvendýrum og líkamsstarfsemi þeirra.