152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér dýravelferð og orðspor Íslands sem hestamannaþjóðar en ekki síður þjóðar sem setur velferð dýra ofar fjárhagslegum skammtímaávinningi. Þetta eru mjög brýn málefni og það er mikilvægt að þau séu rædd hér í þessum sal. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, og hæstv. ráðherra fyrir þeirra inngangsorð. Við höfum öll séð myndskeiðin, hygg ég, og fordæmum, fullyrði ég, hvers konar meðferð dýra sem uppfyllir ekki ströngustu kröfur. Slíkt harðræði og ofbeldi er einfaldlega óverjandi hvernig sem á það er litið. En staðreyndin er sú að langflestir bændur hugsa vel um dýrin sín. Starfsemi hinna fáu er til þess fallin að varpa skugga á alla þá sem stunda búskap og það er grafalvarlegt mál. Þar liggur í þessu tiltekna máli ábyrgð stjórnvalda sem bera ábyrgð á regluverki og eftirliti. Ég heyri á orðum ráðherra að af hálfu stjórnvalda er verið að skoða þetta mál ofan í kjölinn. Það er búið að skipa starfshóp til að rýna starfsemi blóðmerahaldsins, regluverkið í kring og eftirlitið. Ég vil nota tækifærið hér til að hvetja ráðherra enn frekar til að hraða þeirri vinnu eins og kostur er. Undir er nefnilega ekki bara velferð þeirra dýra sem um ræðir heldur orðspor heillar stéttar, bændastéttarinnar, sem er öll að ósekju komin undir sama hatt hér. Það er líka grafalvarlegt mál.

Við þurfum að hafa skýrt regluverk til að tryggja að velferðar dýra sé gætt. Við þurfum umbætur á þessari löggjöf sem miða að því að bæta velferð dýra. Þær umbætur, annars vegar í ljósi stöðunnar og hins vegar í ljósi umræðunnar, þola einfaldlega enga bið.