152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:03]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er svolítið hugsi yfir því hvernig verið er að afvegaleiða umræðuna eins og með því að hér sé um árás á landbúnað að ræða. Ég hafna því einfaldlega af því að við erum hér að tala um dýravernd. Við vitum vel að víða er pottur brotinn í meðferð á dýrum. Við getum horft til fiskeldis. Einhvers staðar er illa farið með sauðfé eða kýr. Flestir eru að gera vel. Þetta mál snýst einfaldlega ekki um það. Að mínu besta viti er blóðtaka fylfullra mera skelfileg, alveg sama við hvaða aðstæður það er gert. Við getum líka spurt: Til hvers erum við að þessu? Er þetta spurning um matvælaöryggi? Nei, þetta er spurning um mikinn hagnað fyrir einkafyrirtæki á kostnað ásýndar þjóðarinnar og annarra búgreina. Ég held að við þurfum að stíga mjög fast til jarðar. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Mig langar hins vegar að segja að ég geri mér grein fyrir því að blóðmerahald verður ekki bannað með einu pennastriki. Ég er mjög þakklát fyrir það að ráðherra hefur sett á fót þennan starfshóp. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er mál sem þarf að vinna á lengri tíma. Það þarf að mæta þeim aðilum sem eru í þessari starfsemi og þurfa að hætta henni, hugsanlega bæta þeim einhvern skaða en þetta á absalútt ekki að líðast. Við eigum til langs tíma litið að hætta blóðtöku á fylfullum merum. Við getum útvegað þessi frjósemislyf með öðrum hætti þar sem ekki er níðst á dýrum.