152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tala hér fyrir hönd minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Við sem stöndum að nefndaráliti minni hlutans erum ég, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir úr Flokki fólksins.

Eins og hér var farið yfir áðan hefur orðið mikill og óútskýrður dráttur á umfjöllun og afgreiðslu þessa máls og fleiri sambærilegum málum. Fyrir stóru og stöndugu fyrirtækin skiptir þessi dráttur auðvitað engu máli. Þau eru með greiðan aðgang að lánsfjármagni en seinagangurinn bitnar hins vegar á litlu fyrirtækjunum, sérstaklega þeim allra smæstu. Þetta á ekki síst við í ferðaþjónustu og tengdum greinum, greinum sem hafa orðið fyrir mesta högginu vegna heimsfaraldurs. Þessi seinagangur, og eins þau orð sem hafa komið fram í greiningum sem eru unnar fyrir stjórnvöld og í greinargerð þessa frumvarps, vekur auðvitað upp þá spurningu hvort það sé óorðuð stefna þessarar ríkisstjórnar að knýja fram samþjöppun í ferðaþjónustu, búa þannig um hnúta að fyrirtækjum fækki og framleiðsluþættir færist á hendur stærstu fyrirtækjanna og út úr greininni. Ef sú er raunin þá verður bara að segja það upphátt.

Við skulum líta aðeins aftur í greininguna sem KPMG vann fyrir Ferðamálastofu árið 2020. Þar kemur fram að það sé ferðaþjónustunni fyrir bestu að færri og stærri félög standi að endurreisn til að bæta afkomu og arðsemi. Í annarri greiningu sem sama fyrirtæki vann fyrir Ferðamálastofu nú í desember 2021 er fullyrt að þörf sé á endurskipulagningu fyrirtækja og samþjöppun í greininni á næstu misserum. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað því í ræðustóli Alþingis að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að fyrirtækjum og starfsfólki í ferðaþjónustu fækki. „Það er alls ekki stefna okkar“, sagði hann 7. febrúar 2022, og við heyrðum sams konar svör hér áðan þótt hv. þingmaður hafi reyndar kannski litið svolítið á það sem óhjákvæmilegt að það yrði ákveðin samþjöppun, sem er kannski sjónarmið út af fyrir sig. En eins og hér var líka rakið þá er það alveg skýrt í greinargerð þessa frumvarps og í greinargerðum fleiri frumvarpa að lögð er mjög mikil áhersla á að stjórnvöld megi ekki með stuðningi sínum við atvinnulífið aftra tilfærslu framleiðsluþátta milli fyrirtækja og greina. Við umfjöllun frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd viðruðu gestir áhyggjur af því að það væri hugsanlega bara einbeitt stefna ríkisstjórnarinnar að fækka fyrirtækjum í ferðaþjónustu og auðvelda stærstu fyrirtækjunum að kaupa upp þau smærri. Við í minni hlutanum teljum þessar áhyggjur ósköp skiljanlegar, m.a. í ljósi mjög sterkra hagsmunatengsla tveggja ráðherra þessarar ríkisstjórnar við tvö af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins og þess gríðarlega ríkisstuðnings sem þessi stærstu fyrirtæki hafa notið í heimsfaraldri.

Við í minni hlutanum leggjum til ákveðnar breytingar á frumvarpinu, breytingar sem miða bæði að því að ná til fleiri fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tjóni vegna kórónuveirunnar og til að tryggja að fjárstuðningur sé til þess fallinn að ýta undir heilbrigðan vinnumarkað og honum sé beint til fyrirtækja sem fara eftir lögum og reglum.

Í fyrsta lagi leggjum við til að gerð verði breyting á skilgreiningu tekna til að girða fyrir að fyrirtæki geti sótt styrki í ríkissjóð vegna fjármagnshreyfinga frekar en samdráttar í sölu á vöru og þjónustu. Er það í samræmi við ábendingar sem fram hafa komið í umsögnum Alþýðusambands Íslands núna og áður í umsögn Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra, um lögin um viðspyrnustyrki þegar þau komu fyrst fram.

Í öðru lagi leggjum við til að viðmið um tekjufall frá og með ársbyrjun 2022 verði lækkað úr 40% í 30%. Með því erum við að bregðast við og taka mið af hækkun verðlags frá viðmiðunartímanum án þess þó að flækjustigið aukist við framkvæmd úrræðisins hjá Skattinum. Er það í takti við sjónarmið sem koma m.a. fram í umsögn Félags atvinnurekenda og í umsögnum frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins og frá Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Í þriðja lagi leggjum við til að í lögin bætist mjög afdráttarlaust skilyrði um að fyrirtæki sem njóta stuðnings samkvæmt frumvarpinu hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þar með talið skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum. Stjórnarmeirihlutinn hefur áður fellt tillögur minni hluta um að útiloka einstaklinga og fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög frá stuðningi úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, en við í minni hlutanum bindum vonir við að stjórnarmeirihlutinn taki a.m.k. undir þá lágmarkskröfu að lögaðilar sem njóta viðspyrnustyrkja og eiga félög á lágskattasvæðum hafi staðið skil á CFC-skýrslum eins og þeim ber samkvæmt lögum.

Í fjórða lagi leggjum við til að umsóknarfrestur verði framlengdur til 30. júní 2022 og taki til tímabilsins mars 2021 til mars 2022. Með því erum við að bregðast við ábendingum um að stuttur umsóknarfrestur hafi bitnað á smáfyrirtækjum sem ekki hafa yfir jafn miklum mannskap að ráða og þau stærri þegar kemur að bókhaldi. Í því sambandi verður að hafa í huga að við framkvæmd tekjufalls- og lokunarstyrkja var sótt um tiltekið tímabil en ekki hvern mánuð fyrir sig eins og við framkvæmd viðspyrnustyrkja. Þetta hefur valdið ákveðnum ruglingi og okkur finnst eðlilegt að bregðast við þessu með því að rýmka umsóknartímann.

Í fimmta og síðasta lagi leggjum við til að fyrirtækjum sem verða uppvís að launaþjófnaði eða öðrum svikum á vinnumarkaði verði gert að endurgreiða viðspyrnustyrkinn.

Að því sögðu leggjum við til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið hér yfir.