152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

Sundabraut.

45. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætisumræður um þetta mikilvæga mál. Ég skynja hjá þingmönnum hálfgert vonleysi — ég segi ekki vonleysi en kannski þá trú að sennilega muni Sundabraut bara aldrei koma af því að hún hefur verið svo lengi í umræðunni. Ég hef ákveðna samúð með því sjónarmiði, þetta sé alltaf einhvers staðar í framtíðinni, ekki núna. En framtíðin er núna varðandi þetta mál. Það er núna sem á að taka ákvörðun um Sundabrú eða Sundagöng. Það verður Sundabrú. Við getum tekið umræðuna um Sundagöng eða -brú, en endanlega ákvörðunin verður Sundabrú, sama hve lengi við eigum eftir að rífast um það. Ég vona ég sé að segja í síðasta sinn orðið Sundabraut vegna þess að ég er orðinn svo leiður á að heyra þetta orð í umræðunni, að nú sé komin viljayfirlýsing um að það eigi að byggja Sundabraut hitt og þetta en það er ekki búið að ákveða hvernig þetta á að vera.

Varðandi tímafaktorinn þá hefur gerð Sundabrautar tafist lengi, hún var fyrst sett á árið 1975, fyrir 47 árum. Hún kom fyrst inn í aðalskipulag Reykjavíkur árið 1984, fyrir 38 árum. Vegna flokkspólitískra deilna í Reykjavík var verkefninu alltaf frestað. Upphafleg lega Sundabrautar var útilokuð með skipulagsbreytingum þegar land við Gelgjutanga var nýtt undir íbúðauppbyggingu. En það er enn pláss og í þingsályktunartillögunni er talað um brú milli Kleppsvíkur og Gufuness. Hér er um gríðarlega hagkvæma framkvæmd að ræða, þjóðhagslega hagkvæmustu vegaframkvæmd sem til er á Íslandi. Þjóðhagslegur ábati, eins og kom fram áðan, er á milli 186 og 235 milljarðar kr. yfir 30 ára tímabil. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Innri vöxtur framkvæmdarinnar samkvæmt Vegagerðinni er metinn á 10–12%. Til samanburðar er almennt talið að verkefni séu fýsileg ef innri vöxtur er yfir 3,5%. Þetta er margfaldur innri vöxtur, margfaldur.

Reykjavíkurborg hefur lýst yfir andstöðu við þverun Kleppsvíkur með brú. Árið 2008, fyrir 14 árum, samþykkti borgarstjórn tillögu með áskorun til samgönguráðherra og samgöngunefndar Alþingis að þessir aðilar beittu sér fyrir því að Sundabraut yrði lögð í göng. Það eru 14 ár síðan. Ég hef ekki heyrt álit borgarstjórnar síðan en ég tel að það séu breyttir tímar á þessum 14 árum og ég tel líka að Sundabraut muni umbylta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, algerlega umbylta þeim. Hún mun opna mikla möguleika fyrir uppbyggingu hverfa fyrir norðan Reykjavík, upp á Kjalarnesi og víðar, og það koma fleiri akstursleiðir inn í borgina. Þetta myndi minnka stórkostlega álagið á Vesturlandsveg milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, það yrði minni traffík þar. Ég er sannfærður um það líka að brú verður meira notuð innan Reykjavíkur heldur en af fólki af Vesturlandi sem er að koma inn í borgina. Mesta magnið af umferðinni verður innan Reykjavíkur varðandi þessa brú þó að hún sé gríðarlega mikilvæg fyrir landsbyggðina. Ég get tekið dæmi. Á Akranesi búa 8.000 manns, milli 7.000–8.000. Í Grafarvogi, sem myndi geta nýtt þessa brú, búa eitthvað í kringum 25.000 manns, ef ég man rétt, gæti verið komið upp í 30.000 manns, ég veit það ekki, en síðasta tala held ég að hafi verið 23.000 manns í Grafarvogi. Þetta myndi nýtast Grafarvogsbúum mjög vel og mjög mikið. Vissulega yrði andstaða þar líka af því að það væri komið samgöngumannvirki þarna, en þó samgöngumannvirki sem ég tel að yrði mikil borgarprýði í borgarlandinu, glæsilegt mannvirki sem allir höfuðborgarbúar gætu verið stoltir af. Ég tel að andstaðan við brú sé að miklu leyti andstaða við hið óþekkta og að vissu leyti byggð á misskilningi. Ég tel að umferðin verði ekki það mikil að hún skemmi fyrir neinu varðandi íbúabyggð. Við getum tekið andstöðuna við það þegar Hringbraut var færð til, það var gríðarleg andstaða við það. Það er oft andstaða við samgöngumannvirki, við getum tekið sem dæmi Bessastaðahraunið, þar var lagður vegur í gegn og var mikil andstaða. Þar voru náttúruspjöll, þar var hraun, en þessi brú verður í borgarlandinu. Hver eru áhrifin á umhverfið? Þetta eru mikilvæg lög, lög um mat á umhverfisáhrifum. Þar eru taldar gæsir og varp, ég hef skoðað svona mat úti á landi t.d. varðandi Þröskulda, Arnkötludal, Gautsdal og fleira. Hvað hefur áhrif? Jú, það fer svona mikið af gróðri undir veg og annað slíkt. Umhverfisáhrif af þessari framkvæmd yrðu ekki mikil þar sem hún er í borgarlandinu. Það er engin röskun á umhverfi og náttúru vegna vegaframkvæmdarinnar í borgarlandinu, ekki nein náttúruspjöll eða slíkt. Það er því ekki neitt sem við þurfum að hafa áhyggjur af.

Varðandi göng þá er nýtingin 20% minni, það er 20% meiri nýting á brú. Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða verði tekin, það verði farið að ræða um Sundabrú, byrjað að hanna hana og setja í skipulagsferli og lög um mat á umhverfisáhrifum verði framkvæmd. Þetta tekur allt tíma. Að ekki sé búið að ræða um Sundabraut — ég ætla að reyna að heita sjálfum mér því að tala ekki um Sundabraut í framtíðinni heldur bara Sundabrú eða Sundagöng. Þetta mat tekur tíma og líka skipulagsferlið. Það er svo mikilvægt að fara að byrja strax. Það er ekki hægt að tala um að við séum að undirbúa þetta þegar ekki er búið að ákveða hvernig mannvirkið á að líta út, ég tala nú ekki um hvort það eigi að vera brú eða göng. Ég tel mikilvægt að Alþingi taki af skarið, setji þetta sem algjört forgangsverkefni í samgöngumálum þjóðarinnar og innviðaráðherra fái skýran vilja frá Alþingi um hvað Alþingi vill, að það verði Sundabrú og það verði að hraða framkvæmdum eftir fremsta megni og þetta verði forgangsmál til hagsbóta fyrir þjóðina. Þetta eru það háar fjárhæðir. Ég veit að fyrir það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir hér á Alþingi, Norðvesturkjördæmi, með Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra, er þetta gríðarlega mikilvæg framkvæmd, bæði fyrir ferðaþjónustu, atvinnumöguleika og fleira. Þetta eru hagsmunir landsbyggðarinnar og þetta eru líka hagsmunir höfuðborgarinnar. Umferð í Reykjavík er alveg með hreinum ólíkindum, þessar umferðarteppur, og það er kominn tími til að fara í alvöruframkvæmdir, flóknar og erfiðar framkvæmdir. Þetta er það flókin framkvæmd og mikilvæg að það er mikilvægt að byrja strax. Ég veit að Íslendingar eru ekki vanir að fara í flóknar og erfiðar framkvæmdir, þeir fara oft í frekar einfaldar framkvæmdir, vegaframkvæmdir og svona. Að byggja göng er ekkert flókið, að moka út og annað slíkt, en þetta er mjög viðamikil framkvæmd og mun kosta sitt og það er mikilvægt að hefjast handa sem fyrst svo að við getum fengið hinn efnahagslega ábata sem allra fyrst.

Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka þingmönnum fyrir ágætisumræður um málið. Ég vona að það fái góða umræðu og meðferð í þingnefnd.