152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

málefni fólks á flótta.

[10:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi málsmeðferðartímann. Það hefur auðvitað áhrif á það hvernig sú stofnun sem vinnur þessi störf, hvort sem það er umsókn um ríkisborgararétt eða umsóknir um vernd, hagar sínum vinnubrögðum og getur nýtt sinn mannafla. Þetta tengist auðvitað saman, það er sama stofnunin sem vinnur upplýsingar og afgreiðslu þessara mála. Varðandi Úkraínu þá ítreka ég bara það sem ég sagði: Við okkur blasir breytt sviðsmynd, breytt heimsmynd. Við því hljótum við að bregðast og við munum skoða það. Það er fundur í þjóðaröryggisráði síðar í dag þar sem þessi mál verða m.a. til umræðu. Við munum horfa til þess hvað nágrannaþjóðir okkar, samstarfsþjóðir, gera í þessum efnum og uppfylla skyldur okkar, eins og ég vænti að aðrar þjóðir muni gera.