152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

vextir og húsnæðisliður í vísitölunni.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði hérna rétt áðan að það væri svo alvarlegt að eignir væru að færast frá heimilunum til bankanna. Þegar ég bendi á að þessu sé ekki þannig farið, það þurfi að skoða báðar hliðar málsins, að eignastaða heimilanna vaxi miklu hraðar en skuldastaðan, þá er komið hingað upp og sagt að það skipti ekki máli. Þá skulum við bara snúa okkur að einhverju öðru tali. Ég benti sömuleiðis á að ráðstöfunartekjur heimilanna hefðu aldrei verið meiri. Við þurfum að skoða hlutföll eins og t.d. hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna fer til að standa undir húsnæðislánum. Þetta skiptir máli. Mitt innlegg inn í þessa umræðu er: Já, við skulum hafa auga með þeim sem minnst hafa á milli handanna, en það fólk er margt í ákveðnu skjóli, sérstaklega af verðtryggðum langtímalánum þar sem greiðslubyrðin í hverjum mánuði hækkar ekki einmitt vegna lánaskilmálanna, sem hv. þingmaður er í hinu orðinu síðan á móti. Það er ákveðin þversögn í þessum málflutningi, að vilja útrýma þeim lánum sem við þessar aðstæður veita einmitt mesta skjólið.