152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

skaðabótalög.

68. mál
[11:43]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þetta góða frumvarp, þetta eru aldeilis orð í tíma töluð. Ég heyri að hann er búinn að tala um þetta áður og jafnvel tvisvar, að þetta sé í þriðja sinn ef ég náði því rétt. En þetta er nefnilega mjög mikilvægt mál og ekki síst í þeirri umræðu sem samfélagið er að ganga í gegnum varðandi heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi. Við erum æ betur að reyna að ná utan um slík mál og þá kemur að þeirri spurningu hvort við viljum ekki reyna að haga málum þannig að sem flestir hafi möguleika til að nota kerfið sem samfélagið hefur sett upp, eins og dómskerfið, og þau kerfi þar sem hægt er að leita réttar síns og fá úr málum sínum skorið. En eins og fram hefur komið er þetta alltaf spurning um aurinn. Við höfum verið að ræða um kynferðisafbrotamál, meint brot sem fólk hefur orðið fyrir og hefur ekki treyst sér til að fara með fyrir dómstóla vegna þess að þar er sönnunarbyrðin erfið.

Eins og við höfum farið yfir, í umræðu um þessi mál undanfarna mánuði, þarf bæði kjark og þor til þess. Fólk er kvíðið og treystir sér ekki fyrir dómstóla með þessi erfiðu viðkvæmu mál. En það hefur líka áhrif að það kostar að fara með mál fyrir dóm. Þú veist náttúrlega aldrei hver niðurstaðan verður og hver þarf að borga brúsann. Með því að rýmka þessi ströngu skilyrði, eins og fram kemur í frumvarpinu, gefum við þeim sem eru efnaminni — þeim sem minna mega sín, þeim sem hafa orðið fyrir einhvers konar líkamlegu eða andlegu tjóni, því líkamlegu tjóni fylgir oft mikið andlegt tjón — tækifæri til að fara með sín mál til dómkerfisins. Það er það kerfi sem við höfum búið til til að leiða mál til lykta, hvort um afbrot sé að ræða, sekur eða saklaus, og hverjar bæturnar skuli vera.

Við erum því að tala um þetta í stærra samhengi, að gefa fólki þetta tækifæri. Það er stór hópur, fátækt fólk, sem hefur einfaldlega ekki burði, og ekki heldur andlega burði, til að taka þessa áhættu. Það treystir sér ekki í það en sest niður, mögulega með tryggingafélaginu, og þiggur aðeins brot af þeim bótum sem það myndi hugsanlega fá hefði verið farið í skaðabótamál og því dæmdur skaði. Þetta er því margslungið og mér finnst þetta gott frumvarp að því leyti til að við erum að stíga svo mikið í þá átt að hjálpa fólki sem verður fyrir tjóni til að leita réttar síns og að það hafi til þess kjark og hugrekki, sérstaklega þeir sem hafa orðið fyrir skaða eins og ofbeldi, líkamstjóni, heimilisofbeldi. Þarna er oft búið að brjóta manneskjuna niður andlega, ef við tökum t.d. dæmi um heimilisofbeldi sem gæti hafa verið langvinnt, þannig að við erum kannski að horfa á manneskju sem er búin að missa traust, ekki bara á aðstæðum sínum og sjálfri sér og sínu fólki sem og heimilisofbeldisaðila heldur þarf líka að spyrja sig: Mun dómskerfi þessa lands standa með mér, mun það hlusta á mig? Þarna er margt undir.

Eins og ég þekki, ef ég hugsa til sögunnar, hafa gjafsóknarmálin verið alla vega í gegnum tíðina. Það var sú tíð að gjafsóknarreglugerðin var rúm og síðan kom það ár sem hert var á henni. Staðan er sú að það eru gríðarlega ströng skilyrði. Fólk þarf að vera með afar bága fjárhagsstöðu og það eru sennilega alls konar krúsidúllur í þessum reglugerðum sem ég er ekki með fyrir framan mig. Við vitum öll að það er mjög erfitt að fá gjafsókn, það þarf að uppfylla ansi stíf og ströng og margslungin skilyrði og í þessa vegferð treysta margir sér ekki til að fara, eru fyrir fram vissir um að það gangi ekki upp. Ég styð frumvarpið heils hugar og vonast til að málið fái hlustun og skoðun. Og þó svo að það verði kannski ekki okkar bjartasta von sem komi út úr því þá verði alla vega stigið það skref að horfa meira til þeirra sem hafa orðið fyrir líkamsmeiðingum, hafa misst heilsu, líkamlega og samhliða oft andlega; að það verði opnað fyrir þessa reglugerð þannig að fleirum sem verða fyrir slíku verði gert kleift að nýta sér okkar íslenska, góða dómskerfi. Þangað viljum við sjá fleiri mál fara og þar eru að stórum hluta peningamálin, fjárhagsmálin, sem koma inn og óttinn við það að geta ekki greitt fyrir málið, hvernig sem málið muni fara, auk þess að þurfa að standa fyrir framan dómarann og fara í gegnum allt það ferli sem það þýðir að fara með mál fyrir dóm.

Ég vil enn og aftur þakka fyrir þetta mál. Mér finnst þetta gott mál, eins og ég sagði áðan, í samhengi við þessa umræðu okkar um ofbeldismál. Nú erum við æ oftar að ræða um að sá sem verður fyrir ofbeldinu ætlar ekki að sitja uppi með það heldur skila skömminni. Það væri hægt að halda langa ræða um þetta en þetta er líka hluti af því að auðvelda fólki að fá úr málum sínum skorið frammi fyrir dómara í okkar ágæta dómskerfi.