152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

skaðabótalög.

72. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum ( launaþróun). Flutningsmenn auk mín eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

„1. gr.

Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: launavísitölu.

2. gr.

Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.

3. gr.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var lagt fram á 151. löggjafarþingi, 95. mál, en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Efni þess var einnig að finna í frumvarpi sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi, 430. mál, en hlaut ekki afgreiðslu. Ein umsögn barst um frumvarpið á 151. löggjafarþingi, frá Alþýðusambandi Íslands sem lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og sagði það stuðla að því meginmarkmiði skaðabótalaga að gera tjónþola eins setta og þeir voru fyrir tjón.

Bótafjárhæðir skaðabótalaga breytast í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu, en sú vísitala er lítið notuð við útreikning á verðlagi. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í verðlagsmælingum verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo fjárhæðir þeirra taki breytingum í hlutfalli við breytingar á þeim mælikvörðum sem almennt eru notaðir við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Tilgangur skaðabóta er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og miða skaðabótalögin við árslaun í því sambandi, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þess ber að geta að í apríl 1995 var hætt að nota lánskjaravísitölu til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar og þess í stað notast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stendur nú í 9.987 stigum. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 204% frá gildistöku þeirra og núna er lágmarksviðmið árslauna fyrir 66 ára og yngri 3.651.554 kr. og 1.217.184 kr. fyrir 74 ára og eldri, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. — Maður hikstar á þessari tölu. Þetta er ótrúlega lág tala.

Þær fjárhæðir eru talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en er nú 793,9 stig og hefur því hækkað um 505%, talsvert meira en lánskjaravísitalan. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni en hefur ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar. — Og þarna undir eru einnig nemar og þá líka atvinnulausir.

Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar nú og skaðabótalögin tryggðu þeim við gildistöku. Ef fjárhæðir laganna eru uppfærðar til samræmis launavísitölu hækkar lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir 66 ára og yngri úr 3.651.554 kr. í 7.255.750 kr. — Þarna er um að ræða nær tvöföldun.

Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr — áttið ykkur á því — 1.217.184 kr., við erum að tala um 100.000 kr. á mánuði eins og er, í algera ofrausn, 2.418.583 kr., eða helmingi minna. En það er þó alla vega komið úr 100.000 í nær 200.000.

Þessar tölur sýna að lágmarksvernd laganna hefur minnkað verulega undanfarna áratugi með tilliti til launaþróunar og að lögin bæta ekki skert aflahæfi tjónþola að fullu þegar lágmarksviðmiðin endurspegla ekki launaþróun í samfélaginu. Ef markmiðið er að bæta upp skert aflahæfi tjónþola verður að tengja fjárhæðir laganna við launaþróun. Verði frumvarp þetta samþykkt yrðu ákvæði skaðabótalaganna til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku laganna.

Það er eiginlega stórfurðulegt að maður skuli vera hérna uppi í pontu og mæla fyrir hverju frumvarpinu á fætur öðru þar sem er svona óáþreifanleg mismunun í gangi og þar sem er gjörsamlega verið að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þeir verst settu, þeir sem eru börn, eldri borgarar og þeir sem eru verst settir í þessu þjóðfélagi okkar, fái það sem þeir eiga rétt á. Við erum að tala um heimavinnandi einstaklinga, og þar hefur yfirleitt verið um konur að ræða, eldri borgara, nema og ýmsa þá einstaklinga sem ekki eru með þannig tekjur að hægt sé að lifa á þeim, hvað þá ef maður lendir í því að slasast og þarf að leita réttar samkvæmt skaðabótalögum.

Eins og ég sagði áðan er eiginlega stórfurðulegt að það skuli vera inni núna 3,6 milljóna viðmið, en það ætti í raun að vera 7,2 milljónir, sem er engin ofrausn í sjálfu sér. Það sýnir líka fáránleikann að það skuli eiginlega vera búið að afgreiða þá sem eru 74 og eldri, að þeir eigi í dag ekki að vera með nema 100.000 kr. á mánuði. Það er engin ofrausn þótt það fari í 200.000 kr. Einhverra hluta vegna virðist ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hafa tekið þá ákvörðun að láta þessi mál ekki fylgja launaþróun heldur láta þetta dragast aftur úr.

Þá spyr maður: Fyrir hverja og hvers vegna? Hver er það sem á að græða á því? Ég verð bara að segja alveg eins og er að ríkisstjórnin er að ganga erinda tryggingafélaganna. Það er enginn annar sem kemur til með að græða á þessu. Tryggingafélögin munu örugglega reka upp ramakvein og segja að verði þetta samþykkt þá þurfi þau að stórhækka tryggingarnar, sem er auðvitað algjört rugl. Við erum nú þegar með einar dýrustu tryggingarnar og við sjáum það á gróða tryggingafélaganna núna að það er góðæri hjá þeim. Þau græða á tá og fingri. Það er heldur ekki mjög gagnsætt ferli þegar einstaklingur lendir í slysi og borgað er í svokallaðan bótasjóð, sem er nú ekki það lengur, en tryggingafélagið þarf að leggja fyrir ákveðna upphæð vegna tjóns til að reyna að standa undir þeim kostnaði sem af tjóninu mun hljótast. Það sem er kannski merkilegast við þetta er að þegar uppgjör tjónsins fer fram kemur aldrei fram hversu mikið tryggingafélagið tók frá og hversu mikið tryggingafélagið borgaði.

Við getum sett þetta í samhengi við umræður hér áðan um gjafsókn og fleira. Ef við tökum einstakling sem á rétt á 100 millj. kr. bótum og hann fær kannski ekki nema einn þriðja af því þá fær hann 30 milljónir. En hvað verður um þessar 70? Ef búið var að setja 100 millj. kr. inn í þetta tjón, hvað verður um þær 70 milljónir sem eru mismunurinn? Ef það hefði nú komið í ljós að viðkomandi tjón var 100 millj. kr. og það hefði átt að fást greitt segir það sig sjálft að þarna tapaði einstaklingurinn 70 milljónum. En tryggingafélagið er enn með þessar 70 milljónir í sínum höndum og þær verða kannski enn ein fjöðurin í gróða þeirra. Okkur ber að sjá til þess að ef við erum á annað borð að setja lög um að viðkomandi eigi að fá fjártjón sitt að fullu bætt þá eigum við auðvitað að sjá til þess að svo sé en ekki að búa til lögin og hafa þau þannig að því fleiri ár sem líða því rýrari verði bæturnar og gera síðan ekkert í því þegar ítrekað er bent á að það þurfi að endurskoða þær.

Á síðasta þingi fór ég í umræðu við þáverandi innanríkisráðherra sem var með þessi mál. Þar var mér tjáð að þetta væri í vinnslu í ráðuneytinu og verið væri að vinna í því að breyta þessu. Síðar kom sú niðurstaða að breytingar á þessu væru á leiðinni inn í þingið. Síðan kom í ljós að hætt hefði verið við þetta. Þá spyr maður: Hvers vegna? Ég tel líklegt að þarna hafi vegið inn hagsmunir tryggingafélaganna, að tryggingafélögin hafi mótmælt þessu og ráðuneytið þar af leiðandi ákveðið að láta ekki reyna á þetta, það ætti ekki að fara eftir ákvæðum laganna um að tjónþolar fengju tjón sitt bætt, heldur að sjá til þess að hafa þetta óbreytt.

Þegar svona er gert þá er í sjálfu sér verið að brjóta lögin. Það er verið að brjóta þann rétt sem lögin hafa veitt viðkomandi einstaklingi. Við þekkjum líka dæmi um að einstaklingar hafi kannski bara fengið um 10% af því sem þeir eiga að fá, 10–15% af þeim fjármunum sem þeir eiga að fá. Það segir okkur að einstaklingur sem lendir í þeirri aðstöðu á ekki gott líf fram undan vegna þess að viðkomandi getur verið búinn að missa gjörsamlega heilsuna og tækifærin til að vinna, orðinn öryrki, fjárhagurinn kominn í rúst og ofan á það bætast lög sem koma í veg fyrir að viðkomandi geti í fyrsta lagi sótt um gjafsókn til að verja sig. Í öðru lagi þegar hann fær gjafsóknina og fer með málið fyrir dómstóla þá rekst hann á þessi lög þar sem hann fær kannski ekki nema í mesta lagi, þó að hann fái fullan sigur, helminginn af því sem hann ætti að fá ef rétt væri gefið og farið hefði verið eftir launaþróun.

Ef miða á við laun, eins og kemur skýrt fram, þá eigum við að fara eftir því og miða að því að uppfæra þessa staðla þannig að þeir endurspegli lögin. Ef lágmarkslaun í landinu eru 300.000 kr. þá setjum við ekki inn að einhver eigi að fá 100.000 kr. Það er alveg fáránlegt og er okkur eiginlega til háborinnar skammar að við skulum vera með hver lögin af öðrum þar sem eingöngu er verið að klekkja á þeim verst settu. Við verðum að átta okkur á því að þeir sem eru fjárhagslega sterkir og þurfa ekki á gjafsókn að halda og geta farið með mál sín fyrir dómstóla og náð sínum rétti. Það eru hinir sem eru verst settir, láglaunafólk, öryrkjar, eldri borgarar, venjulegt heimavinnandi fólk, sem standa höllum fæti. Það fólk hefur ekki fjármagn til að fara og berjast við tryggingafélögin. Þar af leiðandi þurfum við bæði að gefa þeim gjafsókn og líka sjá til þess að niðurstaðan sú að þau fái tap sitt á launum bætt að fullu.