Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í þessu samhengi. Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að við værum að tala um 15–20 ár þar til flugvöllur í Hvassahrauni yrði bær til notkunar. Sjálfur er ég nú mikill efasemdarmaður um að það sé yfir höfuð nokkurt vit í að halda þessum rannsóknum áfram, en látum það liggja á milli hluta.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér skilyrði í Vatnsmýrinni, á Reykjavíkurflugvelli, til þessa tíma. Nú liggja fyrir rannsóknir hollensku geimferðastofnunarinnar um skert rekstrarhæfi vallarins á grundvelli byggðar á Valssvæðinu svokallaða og mikill varúðartónn hefur verið sleginn varðandi uppbyggingu í Skerjafirðinum sem gæti haft veruleg áhrif á rekstrargetu flugvallarins í Vatnsmýrinni strax á næstu árum. Við horfum til 15–20 ára framkvæmdatíma á þessum velli sem er mögulega hugsaður til að koma í staðinn fyrir völlinn í Vatnsmýri. Hver sér hæstv. ráðherra fyrir sér að verði staða innanlandsflugsins komi sú staða upp (Forseti hringir.) að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði ekki rekstrarhæfur lengur vegna þess að búið verður að þrengja svo mjög að honum?