Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu. Hér skiptir mestu máli þegar um höfuðborgarsáttmálann er rætt að skipulag og fjármögnun þurfa að tala saman og þurfa bæði að ganga upp svo að hann gangi fram. Umferðarljósastýringin var ekki að ástæðulausu sett í fyrsta forgang því að þar var hægt að ná 30% árangri í að minnka tafir sem ætti að vera ódýrasta lausnin til að ná markmiðum sáttmálans um að vera loftslagsvænn, draga úr töfum og auka flæði umferðar fyrir alla samgöngumáta og þar á meðal almenningssamgöngur. Ég verð bara að segja að það veldur mér mjög miklum vonbrigðum ef það á að fara að byggja áfram á gömlu ljósastýringarkerfi sem er eldgamalt af því að allar nágrannaborgir okkar endurnýja sitt ljósastýringarkerfisútboð á fjögurra ára fresti. Það kostar 3 milljarðar að endurnýja þetta hér, sem er ódýrasta og arðbærasta framkvæmd sem hægt er að fara í þannig að við skulum ekki byggja á gömlu kerfi.