152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Hann gat þess réttilega í upphafi að þetta væri í þriðja sinn sem þetta frumvarp væri flutt og nær óbreytt. Þá minni ég á að fjöldi af athugasemdum frá fagaðilum barst á fyrri stigum málsins. Hvers vegna var ekki horft á eitthvað af þessum athugasemdum? Mér skilst að ekki hafi verið tekið neitt tillit til þeirra í þessari vinnu og nú kemur hæstv. ráðherra og hvetur til þess að nefndin skoði stöðvaskylduna. Ég fagna því svo sem en mér finnast svolítið sérstök vinnubrögð að hafa ekki horft í þetta.

En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, af því að það er nú þannig að í Danmörku fékkst undanþága frá EES-reglum þannig að stöðvaskyldunni er viðhaldið og leyfafjöldi verður áfram takmarkaður með þrepaskiptri úthlutun leyfa: Kom ekki til greina að fara sömu leið og Danir þegar þeir fengu þessa undanþágu á sínum tíma?