152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[14:41]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að þegar ég nefni að frumvarpið sé lagt fram í þriðja sinn þá er rétt að geta þess að við erum búin að fara í gegnum alheimsfaraldur og sá sem hér stendur hefur ekki lagt nokkra áherslu á að klára þetta mál vegna þeirra hamfara sem hafa verið m.a. á flutningasviðinu og þar á meðal hjá leigubifreiðastjórum á síðustu árum. Við getum hins vegar ekki komist undan því að svara þessu kalli sem við höfum vitað að væri yfirvofandi og er m.a. komið í þessu rökstudda áliti. Við höfum gert breytingar vegna þessara athugasemda, m.a. frá Persónuvernd og Neytendastofu vegna neytendamála, þannig að það hefur verið hlustað á þær umsagnir og er skilmerkilega greint frá þeim í greinargerðinni.

Varðandi stöðvaskylduna, sem er náttúrlega allt of langt mál til að fjalla um á átta sekúndum, þá er ég búinn að segja það hér að ég hvet nefndina til að skoða það. Það er mismunandi á Norðurlöndunum en alls staðar er það undantekning. Við erum með sérstakt stöðvaskyldustarfsleyfi í þessu frumvarpi þannig að það er ekki bannað, það er heimilt. Ef menn vilja skylda það hvet ég nefndina til að skoða það.