152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[14:47]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum nú reynt að taka tillit til ákveðinna þátta og kannski hefur bara fyrst og fremst ekki náðst þessi mikla umræða hér í þinginu vegna aðstæðna í samfélaginu út af alheimsfaraldrinum Covid og engin sérstök pressa á að ljúka málinu þegar við fáum frið fyrir því, sem við munum ekki fá núna. Nú þurfum við að svara því hérna, þingið, hvernig við ætlum að breyta þessu. Það hafa aðrar Norðurlandaþjóðir verið að gera. Sumar hafa gengið mjög langt og breytt miklu meira en gert er hér. Í þessu frumvarpi er gengið mjög varlega til verks og uppfylltar að lágmarki þær kröfur sem settar eru af ESA en hlustað mjög á sjónarmið m.a. leigubifreiðastjóra, en auðvitað líka neytenda sem kalla hér eftir möguleikum á nýsköpun og meiri samkeppni. Þannig að mitt mat er að við séum að reyna að fara milliveginn.

Varðandi af hverju nýjustu breytingarnar frá Noregi eru ekki nefndar þá hafa þeir fyrst og fremst fjallað um að þeir ætli að breyta einhverju. Þær upplýsingar sem við höfum um það sem þeir ætla að breyta en eru ekki búnir að fara í eru breytingar sem eru nú þegar í þessu frumvarpi, þ.e. að setja harðari reglur um skilyrðin í kringum reksturinn og skattskil og bókhald og merkingar og eitthvað slíkt — allt sem við erum með nú þegar í frumvarpinu hér.