152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[15:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hér gerir ríkisstjórnin enn á ný tilraun til að leggja af íslenska leigubílstjóra. Þrákelkni stjórnarinnar í þessu máli er mikil, eins og reyndar í mörgum málum þar sem þjónkun við reglur Evrópusambandsins birtist, án þess að þær reglur henti endilega íslenskum aðstæðum eða taki mið af þeim og, eins og í þessu tilviki, án þess að menn hafi gert nóg til að laga frumvarpið að íslenskum aðstæðum eftir því sem tækifæri eru til eða hafna því ella. Leigubílstjórar hafa gegnt og gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu, ekki hvað síst fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum á erfitt með að komast leiðar sinnar eða kýs að eiga ekki bifreið. Þeir hafa um áratugaskeið áunnið sér traust hjá íslenskum almenningi. Maður heyrir margar sögur af því hvernig eldri borgarar reiða sig á þjónustu leigubílstjóra sem þekkja jafnvel viðkomandi eða hafa kynnst honum vegna nýtingar á þjónustunni. Fólk upplifir öryggi af því að kalla til íslenskan leigubílstjóra, enda hafa þeir á margan hátt staðið sig vel eins og ég nefndi.

Hér er, eins og á svo mörgum sviðum, verið að innleiða einhvers konar öfgafrjálshyggju, þ.e. þennan nýja heimskapítalisma sem gengur iðulega út á það að veikja stöðu minni aðila í atvinnurekstri og styrkja stöðu þeirra stærri, og þá sérstaklega einhverra alþjóðlegra risa. Staða fyrirtækja á hinum ýmsu sviðum, minni fyrirtækja, ég tala nú ekki um einyrkja, hefur veikst jafnt og þétt á undanförnum árum á kostnað erlendra risa og hér er lagt fram frumvarp sem beinlínis miðar að því að gera þetta gagnvart heilli starfsstétt á Íslandi, leigubílstjórum. Það er ekki eins og leigubílstjórar hafi lifað í vellystingum. Þeir þurfa að vinna mikið til að hafa nægar tekjur fyrir sig og fjölskyldu sína og það að ætla þeim nú að fara í samkeppni við risafyrirtæki, sem geta náð miklu meiri hagkvæmni en einyrkjarnir, er, eins og kemur fram í allmörgum umsögnum um málið, í raun til þess fallið að rústa þessari atvinnugrein, að ekki verði lengur kleift að vera í fullri vinnu og til langframa leigubílstjóri á Íslandi. Við munum ekki lengur hafa þessa reyndu og traustu leigubílstjóra sem hafa getið sér gott orð hér á landi.

Þetta mun einnig þýða að neytendur munu búa við minna öryggi. Það verður að segjast alveg eins og er og vísað er í fjölda frétta frá útlöndum í þeim umsögnum sem hafa borist vegna þessa frumvarps þar sem sýnt er fram á slíka þróun. Það eitt og sér ætti auðvitað að vera okkur áhyggjuefni. Leigubílstjórar, eins og margar aðrar stéttir, eru nýkomnir í gegnum erfiða tíma, þennan Covid-faraldur, og raunar hefur það komið fram hér fyrr í umræðunni að þetta mál hafi hugsanlega að einhverju leyti beðið af þeim sökum. En um leið og losað er um þar og þeir sjá fram á bjartari tíma, og að geta vonandi unnið sig upp, greitt niður skuldir sem þeir hugsanlega hafa bætt á sig á síðustu tveimur árum, þá er þessu skellt fram á ný og það án þess að tekið sé tillit til fjölmargra þeirra mikilvægu og alvarlegu athugasemda sem komið hafa fram við frumvarpið.

Hæstv. ráðherra kynnir svo frumvarpið hér með þeim hætti að hann vonist til þess að nefndin lagi það eitthvað. Þrátt fyrir allar þessar tilraunir ráðuneytisins er málið sem sagt ekki enn tilbúið. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði reyndar að mikil og vandleg vinna hefði farið fram í þinginu og af hálfu ráðherra og ráðuneytisins sem er eiginlega öfugt við það sem ráðherrann sagði en hann benti á að kannski hefði ekki farið fram nógu mikil umræða um þetta mál vegna Covid, og það hefði þess vegna beðið. Nú skulum við þá eiga þessa umræðu hér í þingsal og í nefndinni. Ég vona að sú umræða verði til þess að menn sjái að málið er ekki betur unnið en svo að æskilegt væri að senda það einfaldlega aftur til ráðuneytisins og gera enn eina tilraun þar, eða helst bara láta þetta eiga sig og halda áfram að hafa lög sem taka mið af íslenskum aðstæðum, ella að nefndin láti til sín taka og geri mjög veigamiklar lagfæringar á frumvarpinu því að það veitir ekkert af því. Það er búið að gefa upp boltann með það að nefndin hafi ekki bara heimild til þess heldur sé beinlínis hvött til þess og vonandi láta menn þá verða af því. Ella munum við sjá eftir því að hafa afgreitt þetta mál með þessum hætti og lagt heila starfsstétt niður og komið á kerfi þar sem, eins og fram kom hjá einum hv. þingmanni, menn geta samið um verðið við hvern og einn sem leiðir þá væntanlega til þess að kabbojarnir ráða för. Þeir sem undirbjóða aðra ráða för í þessu og hagnaðurinn fer að miklu leyti úr landi, til erlendra stórfyrirtækja. Þetta er ekki heillavænleg þróun og mikilvægt og raunar nauðsynlegt að þingið gripi inn í og verndi íslenska leigubílstjóra.