152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[16:05]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ja, ég þekki nú ekki nægilega vel til íslenskra leigubílstjóra, en það getur meira en vel verið að Hreyfill sé kominn með app, íslenskt app, ég þekki það bara ekki. (Gripið fram í.) — Þeir eru með það? Þá liggur það fyrir og það er bara gott og blessað. En það er ekkert vandamál í sjálfu sér, þessi öpp eða Uber. Það er ekkert mál fyrir Íslendinga að nota Hreyfilsappið frekar en Uber-appið. Það er enginn munur þar á milli. En vandinn sem hv. þingmaður var að lýsa er vandamál stéttarinnar sem slíkrar. Afkoman er einfaldlega ekki nógu góð, þetta er allt of stopul vinna og það er verið að búa til harkhagkerfi. Þetta mun leiða til enn þá meira harkhagkerfis þegar aðrir geta komið með Uber-appið og fara að keppa við þá sem eru með leyfi í dag.

Ég er alveg hlynntur því að opna aðeins upp og reyna að auka þjónustuna. Það er mjög mikilvægt að það sé góð þjónusta að þessu leyti og að sjálfsögðu munu þeir sem eru með alvöruleigubifreiðastöðvar, svo ég kalli það bara það, sem eru með alvörustarfsstöð og alvöruafgreiðslu, vel geta lifað af við hliðina á þeim sem eru með öppin. Það breytir því ekki að við þurfum að tryggja að ákveðinn hópur manna geti lifað af þessu, geti sinnt þessu í fullri vinnu og að þjónustan sé góð fyrir notendurna og líka að fjölskyldur geta lifað af þessu. Það er það sem skiptir máli. Ég hef ekkert á móti erlendum öppum, ekki nokkurn skapaðan hlut, og það er gott að vita að Hreyfilsappið sé komið. Og þetta með að fólk þurfi endilega að nota sama appið á Íslandi og í útlöndum, eins og kom hér fyrir í fyrri ræðu — það er bara ekki rétt, það er bara ekki þannig. Ég nota erlend öpp þegar ég tek lestir og sporvagna í útlöndum og það allt. Það er ekkert mál að skipta um app, það er minnsta mál í heimi að hlaða niður appi, hvort sem það er íslenskt eða erlent. Þetta er líka varðandi bóksölu og ég tel líka að það sé kominn tími til að Ísland fari af alvöru inn í upplýsingahagkerfið og fari að búa sér til eigið „ecosystem“ hvað það varðar, en ekki endilega alltaf að stóla á erlenda aðila hvað það varðar.