Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er svo sem ágæt. Ég verð að viðurkenna að ég hef oft heyrt hv. þm. Björn Leví Gunnarsson ræða um þetta varðandi fjárlögin og að það henti illa að kjósa að hausti þess vegna. Ég hélt reyndar að Píratar væru ekki alveg svo miklir íhaldsmenn að það væri erfitt að breyta þessu. Eins og farið hefur verið yfir hérna þá er þetta mjög mismunandi í löndunum í kringum okkur, annars vegar að hausti og hins vegar að vori. Það er líka þannig að almanaksárið er eins svo að þau lönd hljóta að vera að glíma við það sama. Ég held að einmitt lögin um opinber fjármál hefðu átt að hjálpa okkur svolítið með þetta. Þetta á ekki að vera eins erfitt og það var kannski fyrir einhverju síðan þegar við vorum bara með fjárlög sem við vorum að samþykkja í desember og það var í rauninni eina stefnan í fjármálum ríkisins og ekkert verið að horfa til lengri tíma. Nú erum við þó með fjármálastefnu og fjármálaáætlun og svo fjárlög. Það er auðvitað ákveðin pressa og kannski það sem við lentum í eftir síðustu kosningar þegar tók langan tíma að greiða úr flækju í einu kjördæminu sem setti okkur auðvitað í svolítið sérstaka stöðu. Ég get alveg tekið undir það og það var fullseint sem við lögðum af stað hér í þinginu með að fara að vinna okkur inn í annars vegar fjárlög og svo fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. En ég get ekki séð að þetta sé stóra vandamálið okkar og skipti öllu máli. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson endaði á að spyrja: Hvenær er best að hafa kosningar? Ég segi bara: Þegar kjörtímabilinu lýkur.