152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra og vil leggja mitt af mörkum í umræðum hér til að það geti orðið að lögum hið fyrsta. Mig langaði til að fjalla um þann þátt frumvarpsins, þ.e. 3. gr., sem lýtur að þeim breytingum sem verið er að gera á hegningarlögum varðandi barnaníðsefni. Við vitum að framþróun tækninnar hefur ekki eingöngu jákvæðar afleiðingar í för með sér. Ein af þeim alvarlegri er sú að það er orðið mun auðveldara en áður var að verða sér úti um barnaníðsefni á netinu sem og að dreifa því. Þessi brot eru í dag umfangsmeiri, þau eru skipulagðari og þau eru því miður í einhverjum tilvikum, og mörgum vil ég leyfa mér að segja, grófari en áður. Framleiðsla og dreifing barnaníðsefnis er í ákveðnum tilvikum beinlínis framin í skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta er iðnaður með mikla fjárhagslega veltu og iðnaður þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum með skipulögðum hætti eins einkennilega og ömurlega og það nú hljómar. Staðan kallar á að þetta ákvæði hegningarlaga verði uppfært með þeim hætti sem mælt er fyrir um í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra. Þannig getur þetta ákvæði náð fram tilgangi sínum.

Þegar dómar fyrir brot gegn þessu ákvæði eru rýndir sést að þegar um stórfelld brot hefur verið að ræða hafa sakborningar verið með tugi þúsunda mynda og myndefnis í vörslu sinni, tugi þúsunda. Í einhverjum tilvikum er um að ræða mjög ung börn og afar gróf kynferðisbrot. Í þeim veruleika að refsirammi er að hámarki tvö ár fyrir þessi brot gefur augaleið að refsingarnar geta ekki speglað alvarleika brotanna. Refsiramminn nær einfaldlega ekki utan um hin allra stærstu mál að umfangi eins og þau birtast í rannsóknum lögreglu í dag, og stærri þá í þeirri merkingu að sakborningar eru með svo mikið magn af slíku efni. Þeir eru með meira af því en var fyrir einhverjum árum vegna þess hve aðgengilegt efnið er og þess vegna verður löggjafinn að fylgja þróuninni eftir. Ég ætla að hlífa þingsal við því að ræða um það hvað má sjá á myndum af þessu tagi og myndskeiðum en þekki það úr fyrra starfi mínu. Með þeirri breytingu sem hæstv. dómsmálaráðherra er að leggja til fengjum við refsiramma sem er á svipuðum slóðum og annars staðar á Norðurlöndum. Ég hef sjálf aðeins skoðað þróun lagasetningar á Norðurlöndunum að þessu leyti og við yrðum með þessu á pari við löggjöfina þar. Það er líka sjálfstætt atriði og sjálfstætt sjónarmið að samræmi sé í lagasetningunni því að lögreglan vinnur jú þvert á landamæri í þessum málaflokki eins og í öðrum brotum og ekki síst þeim brotum sem fara fram í gegnum netið.

Mig langar að nefna aðeins þróunina varðandi þessa brotastarfsemi eins og sérstök spjallsvæði á netinu sem hafa auðveldað fólki samskipti og um leið leit að efni af þessu tagi. Á þessum svæðum hafa menn ekki aðeins deilt barnaníðsefni með öðrum heldur í einhverjum tilvikum jafnframt lagt á ráðin um að brotið verði með tilteknum hætti gegn barni til að horfa á það þegar brot er framið gegn barninu. Brot gegn viðkomandi barni felst þá annars vegar í því að það verður fyrir kynferðislegu ofbeldi og hins vegar í því að efni sem sýnir brotið verður aðgengilegt öðrum brotamönnum á netinu. Það eru aðallega börn í viðkvæmri stöðu sem eru í mestri hættu gagnvart brotum af þessu tagi og börn, vil ég leyfa mér að nefna, í ákveðnum löndum og á svæðum þar sem þessi iðnaður hefur þrifist. Ég myndi líka vilja nefna almenna notkun snjallsíma sem eitt atriði, þ.e. að gerendur sem brjóta kynferðislega gegn barni eiga auðveldara en áður með að taka ljósmyndir eða myndskeið af brotinu. Þegar við hugsum um barnaníðsefni erum við, held ég, oft með hugann við þennan skipulega anga þessara brota en kynferðisbrot af þessum toga eru líka framin gegn barni inni á heimili þess og af hálfu nákomins aðila, jafnvel innan fjölskyldunnar. Hér hefur tæknin því miður þá skuggahlið að gerendur í barnamisnotkunarmálum eru í einhverjum tilvikum sjálfir að framleiða efni eins og þetta til eigin nota.

Ég er ánægð með að sjá, svo að við förum inn í orðalag ákvæðisins, að hér er lagt til að orðinu „dreifir“ verði bætt við 1. málslið 1. mgr. 210 a. Núgildandi orðalag ákvæðisins kveður á um að refsivert sé að afla sér eða öðrum barnaníðsefnis en nú er það sérstaklega tilgreint að það sé líka refsivert að dreifa efni sem þessu á annan hátt. Það er aðeins annar bragur á því orðalagi en „að afla sér eða öðrum“. Ég geri ráð fyrir að ástæðan að baki sé sú að aukin útbreiðsla barnaníðsefnisins felst ekki síst í því að menn eru inni á spjallsvæðum að dreifa efni sem þessu til mikils fjölda manna í einu, jafnvel til ótilgreinds fjölda manna, og þess vegna eigi að nota orðið „dreifir“ með þeim hætti í ákvæðinu í staðinn fyrir „að afla sér eða öðrum“. Það er jákvæð breyting að leggja til sérstakt ítrekunarákvæði þannig að hafi maður verið dæmdur fyrir brot gegn þessu ákvæði megi hækka refsingu um allt að helming. Þetta þjónar þeim augljósa tilgangi að tekið sé fastar á þeim sakborningum sem hafa áður verið dæmdir fyrir svo alvarleg brot. Það er í mínum huga einfaldlega heilbrigð og skynsöm refsipólitík.

Í frumvarpinu finnum við líka sjónarmið sem líta á til um það hvernig við metum alvarleika brots og það er sömuleiðis jákvætt í mínum huga og mjög af hinu góða. Í frumvarpinu eru ákvæði sem varða refsileysi í þeim tilvikum þegar unglingar sem eru í kynferðislegum samskiptum, kærustupör t.d., senda myndir sín á milli, að ekki sé verið að refsivæða þá háttsemi.

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna, nú þegar ég er búin að tala um hversu ánægð ég er með að þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sé komið hér fram, í ljósi þess að undirliggjandi eru gríðarlega miklir hagsmunir barna af betri vernd laganna, að ég hefði viljað sjá þessar réttarbætur verða að veruleika fyrr. Svo hefði hæglega getað orðið því að í nóvember árið 2020 var lagt fram frumvarp um breytta skilgreiningu á barnaníðsefni með nýjum refsiramma fyrir slík brot. Það frumvarp, sem ég lagði fram, fékk jákvæðar viðtökur. Það fékk jákvæða umfjöllun af hálfu allra umsagnaraðila og meðflutningsmenn komu þar að auki úr öllum flokkum. Svo að það sé sagt var hæstv. dómsmálaráðherra vitaskuld ekki kominn í það ráðherraembætti á þeim tíma, en ég hefði haldið að þessi málaflokkur hefði getað notið góðs af því að frumvörp óbreyttra stjórnarandstöðuþingmanna gætu orðið að lögum. Ég ætla að leyfa mér að nefna þetta vegna þess að síðan hafa fallið dómar í málum og það skiptir máli vegna þess að þessi löggjöf er vitaskuld ekki afturvirk.

Hæstv. ráðherra leggur hér til góðar og jákvæðar og heilbrigðar og þýðingarmiklar réttarbætur. Það er einlæg ósk mín að þær verði að lögum á Alþingi sem fyrst. Við munum öll eftir umfjöllun Kompáss fyrir um tveimur árum sem sýndi rækilega fram á þörfina fyrir því að íslensk löggjöf verði á pari við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Því er engin ástæða til að bíða með að vinna þetta mál sem varð engu að síður reyndin með það frumvarp sem ég vísaði til. Ég held að það hefði líka getað sparað þinginu vinnu að vera ekki með tvö nánast eins mál til meðferðar á sama tíma. Það hefði getað sparað starfsfólki ráðuneytisins vinnu og það hefði getað sparað vinnu í þessu húsi og hefði getað leitt til þessara breytinga fyrr. Það eru ákveðin atriði sem hafa bæst við síðan og ég fagna þeim. Ég styð frumvarp dómsmálaráðherra og bind vonir við að það verði að veruleika.

Um önnur atriði frumvarpsins ætla ég að fá að tjá mig síðar. Það er þau atriði sem varða ákvörðun refsingar og sjónarmið um refsiþyngingu, þ.e. þegar brot er talið vera svokallaður hatursglæpur, að taka eigi það til greina við ákvörðun refsingar. Síðan er það rýmkun á því hvað löggjafinn skilgreinir og telur til hatursglæpa og mér sýnist að breytingin þar sé sú að það sé alveg skýrt að þjóðlegur uppruni fái að falla þar undir og síðan er það þessi breyting varðandi mismunun og umfjöllun um fötlun. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki farið djúpt yfir þá þætti frumvarpsins en vildi brýna hæstv. dómsmálaráðherra, þakka honum fyrir að leggja frumvarpið hér fram, og hvetja hann til dáða. Það er ósk mín að þetta mál fái góða umfjöllun í allsherjarnefnd, verði svo í forgangi hjá ríkisstjórnarflokkunum um þau mál sem hér fái framgöngu, fulla meðgöngu, og verði að lögum. Ég tel að sú breyting sem varðar barnaníðsefni eigi einfaldlega ekki að bíða lengur.