152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta frumvarp vera fagnaðarefni fyrir réttarvörslukerfið í landinu. Hér er svo sannarlega verið að bregðast við breyttum samfélagsviðhorfum og breyttu samfélagi á tímum upplýsingabyltingarinnar og á tímum internetsins. Einnig sýnir þetta frumvarp hve mikilvægt það er að fylgjast með réttarþróun á Norðurlöndunum og alþjóðlegri þróun í refsirétti. Þetta frumvarp er viðbrögð við tilmælum frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis.

Ég fagna því að frumvarpið virðist vera mjög vandað og fagna því að í umfjöllun um greinarnar er farið yfir löggjöf eða minnst á lagagreinar á hinum Norðurlöndunum fjórum, sem er mjög gott fyrir þá sem eiga eftir að vinna með þetta í framtíðinni. Það sýnir hversu mikilvægt norrænt lagasamstarf er. Ég held að samvinna á vegum lögregluyfirvalda sem rannsaka málin sé líka mjög mikilvæg svo þessum lögum verði gefið það inntak sem þau eiga skilið í réttarvörslukerfinu og við rannsókn mála. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið sem hann veitti hér áðan þegar hann var spurður um það.

Það er eitt sem ég sakna úr frumvarpinu. Lagt var fram frumvarp í nóvember 2020 um sama efni er lýtur að 3. gr. frumvarpsins og það hefði verið eðlilegt að minnast á það og fjalla um það frumvarp í frumvarpinu. Það var að vísu án greinarinnar um það þegar unglingar eru að senda myndir sína á milli, sem er í 4. gr., en það var með sömu refsiheimild, sömu ítrekunarheimild og sömu verknaðarlýsingu og líka með þyngingu refsingar.

Hér er réttarbót og hér má líka taka fram að varðandi hatursumræðuna er gengið lengra en á hinum Norðurlöndunum. Í íslensku löggjöfinni er talað um kyneinkenni, en hliðstætt lagaákvæði er ekki að finna í refsilöggjöf annars staðar á Norðurlöndunum. Við göngum því lengra hvað það varðar. En bæði eru verndarhagsmunirnir mjög mikilvægir sem eru börn, og líka varðandi hatursumræðuna, það er gríðarlega mikilvægt að Ísland standist alþjóðlegar samþykktir hvað það varðar og að rannsóknin sé á heimsmælikvarða. Ég veit að þegar Ísland tekur þátt í alþjóðasamstarfi þá getum við verið best í heimi eða a.m.k. reynt að vera það. Ég vonast til að þetta verði til bóta til framtíðarinnar og ekki síst hvað varðar rannsókn og ákærur á þessu sviði.