152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

afnám vasapeningafyrirkomulags.

47. mál
[18:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Tillaga til þingsályktunar um afnám vasapeningafyrirkomulags er með það að markmiði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfstæðis. Nú eru fjárræði og sjálfstæði sjálfsögð mannréttindi allra einstaklinga. Það að ellilífeyrisþegar sem fara á dvalar- og hjúkrunarheimili fái eiginlega ekki notið lögbundins réttar verður að teljast nánast mannréttindabrot. Það er spurning hvort það myndi standa fyrir dómstólum. Ég tel að þetta sé það mikilvægt mál að ef Alþingi samþykkir ekki þessa þingsályktunartillögu, að fela félagsmálaráðherra að leggja fram lagafrumvarp um breytingu á lögum um málefni aldraðra hvað þetta varðar, þá tel ég vera spurningu um að Landssamband eldri borgara fari hreinlega með málið fyrir dóm til að afnema þetta ölmusufyrirkomulag sem felur hreinlega í sér afnám þeirra sjálfsögðu mannréttinda sem fjárræði og sjálfræði er.

Þetta ölmusufyrirkomulag er þannig að þegar einstaklingur flytur inn á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili falla niður lífeyrisréttindi og honum er úthlutaður vasapeningur. Það gengur ekki vegna þess að þegar hann fer á dvalar- og hjúkrunarheimili þá greiðir hann að sjálfsögðu fyrir það og það á hann að greiða úr eigin vasa, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Það virðist vera að þetta kerfi sé raunverulega ekki fyrir aldraða, að það sé meira fyrir þær stofnanir sem þeir fara inn á. Þetta er til hægðarauka fyrir þær og þetta varðar ekki þjónustu við aldraða. Þetta er fyrirkomulag sem þarf ekki að vera fyrir hendi.

Í greinargerðinni er líka minnst á að sambærilegt fyrirkomulag hafi verið í Danmörku en því hafi verið komið á 1990. Það hafði ekki endilega í för með sér að eldra fólk hefði meira á milli handanna en það þýddi hins vegar að þeir voru fjárhagslega sjálfstæðir. Kostnaðurinn ætti því ekki að vera mikill hvað þetta varðar. Þetta er fyrst og fremst spurning um mannréttindi og það að virða sjálfræði og fjárræði og tryggja þá reisn sem framsögumaður kom inn á.

Maður skoðar þetta mál nánast ekki ógrátandi. Fyrir 32 árum, árið 1989, fékk Halldór Sigurðsson, forstöðumaður á Dalvík, leyfi til að gera tilraun hvað þetta varðaði, til að gefa öldruðum kost á að vera fjárhagslega sjálfstæðir. Árangurinn var klár, eins og kom fram í framsöguræðu hér áðan. Þeir sýndu aukna virkni, félagslífið jókst, ferðir í bæinn urðu fleiri. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hefðbundið dvalarheimilisform sé neikvætt, þ.e. að núverandi vasapeningafyrirkomulag sé neikvætt, að það leiði til ótímabærrar hrörnunar einstaklinga. Það er kostnaður fyrir ríkið. Núverandi fyrirkomulag leiðir til kostnaðar fyrir ríkið vegna ótímabærrar hrörnunar. Það minnkar virkni. Allt kerfið á að sjálfsögðu að leiða til aukinnar virkni, aukins félagslífs og aukinna lífsgæða. Það sýnir hversu mikilvægt þetta mál er. Einnig það hvað kerfið hefur verið ótrúlega lengi við lýði. Fyrir sex árum var stofnaður starfshópur og fyrir fjórum árum kom í ljós að vinnan var enn á undirbúningsstigi. Það hafði tekið starfshóp, sem skipaður var í tíð þáverandi félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, tvö ár að komast á undirbúningsstig og hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum.

Það er gríðarlega mikilvægt að koma þessu af stað. Ég tel að ef það verður ekki gert núna ættu Landssamband eldri borgara og eldri borgarar, og Flokkur fólksins mun örugglega styðja það, að fara með málið fyrir dómstóla.