152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

eignarréttur og erfð lífeyris.

52. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris. Ég kom pínulítið inn á það áðan þegar við vorum að tala um lífeyrismálin, lífeyrissjóðina okkar. Með mér á þessari tillögu er Sæland sextektinn góði; hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2022 sem hafi að markmiði að tryggja eignarrétt og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyri og að heimila erfð lífeyrisréttinda.

Frumvarpið tryggi m.a. að:

a. fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður,

b. við andlát gangi lífeyrisréttindi að erfðum til maka og barna að fullu; erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út eða hvort réttindin flytjist til erfingja.“

Í greinargerð með tillögunni segir að tillaga þessi hafi verið lögð fram á 151. löggjafarþingi og ég er að mæla fyrir þessum sjálfsögðu eignarréttindum í annað sinn. Ég þarf víst ekki að taka fram að tillagan náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi.

Þegar lífeyriskerfinu var komið á fót í kjölfar kjarasamninga árið 1969 var almennur sá skilningur launafólks að skyldubundin gjöld í lífeyrissjóði myndu tryggja launafólki eignarrétt þeirra á lífeyrisréttindum, en svo sannarlega hefur öldin verið önnur og tíminn leitt allt annað í ljós. Síðan þá hefur eignarréttur fólks á lífeyri ítrekað verið takmarkaður og skilyrtur, ýmist með lögum og reglugerðum eða samþykktum lífeyrissjóðanna sjálfra.

Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóða mestu. Ég var einmitt að ræða hvernig stjórnirnar eru skipaðir í þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir rétt áðan. Lífeyrissjóðirnir hafa gert mistök í fjárfestingum og stundum hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélagana. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir. Sjóðfélagi sem er ósáttur við rekstur lífeyrissjóðs hefur jafnan ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði um hvaða fulltrúi verkalýðsfélags verði skipaður í stjórn lífeyrissjóðsins eða að skipta um lífeyrissjóð. Þá sitja fulltrúar atvinnurekenda tíðum einnig í stjórnum lífeyrissjóða en gagnvart þeim hefur sjóðfélagi almennt engin úrræði. Einhverjir lífeyrissjóðir hafa sett samþykktir sem heimila kjör stjórnarmanna á aðalfundi þar sem sjóðfélagar geta greitt atkvæði. Þeir eru þó undantekning frá reglunni. Þá er oft misbrestur á að sjóðfélagar séu upplýstir um þau réttindi sem þeir hafa gagnvart stjórn sjóðsins á grundvelli sjóðsaðildar.

Það er í rauninni alveg sama hvert litið er. Þetta er næstum eins og almannatryggingakerfið, þetta er svo ruglað kerfi. Það er nú bara þannig. Fyrst er okkur talin trú um það árið 1969 að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að spara til efri áranna, nú séum við aldeilis að leggja fyrir og þrátt fyrir það verðum við ekki skert hjá almannatryggingum. Við séum að ávinna okkur ákveðnar greiðslur þaðan þegar við verðum komin á eftirlaun. En sannarlega er öldin önnur, virðulegi forseti.

Hinn góði formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Ragnar Þór Ingólfsson, sagði mér á sínum tíma að lögum um lífeyrissjóði hefði verið breytt vel yfir 100 sinnum bara frá efnahagshruninu 2008. Ég vildi frekar halda að það væri frá 1969 því að þetta eru allt of margar breytingar. En þeir vilja engu breyta þegar ég mæli fyrir frumvörpum um breytingar á lífeyrissjóðum. Það er athyglisvert. Þær eru ekki nógu spennandi, þær breytingar sem Flokkur fólksins mælir fyrir, vegna þess að þær eru allar til hagsbóta fyrir eigendur sjóðanna sjálfa. Við erum alltaf að reyna að tryggja eignarrétt þeirra sem eiga sjóðina. Það er ekki vinsælt, virðulegi forseti, eins og sést. En hvað um það, ég ætla ekki að halda mikið meira áfram um þetta en ætlaði einfaldlega að benda á að það er ekkert eðlilegra, samanber eignarréttarákvæði stjórnarskrár, 72. gr., að þegar þú hefur verið lögþvingaður til að greiða eitthvað og þér er talin trú um eitthvað sérstakt, eins og í þessu tilviki að þú sért að ávinna þér einhvern rétt og þetta sé þinn sparnaður og þetta séu þínir peningar, þá hljótum við að vera í góðri trú um að það sé eitthvað að marka það. Ríkisvaldið geti ekki alltaf komið til að krukka meira og meira í því og taka meira og meira til sín eða fara meira og meira frjálsum höndum um eignir okkar í sjóðunum, eins og við þekkjum svo vel. Enda töpuðu lífeyrissjóðirnir um 600 milljörðum, sem við vitum um, í efnahagshruninu 2008. Það er ekki allt slæmt, auðvitað hafa ýmsar fjárfestingar líka gengið vel. En það kaldhæðnislega við það er að við greiðum í sjóðina og svo biðjum við um lán, því að við ávinnum okkur ákveðinn rétt, og þá fáum við lánaða eigin peninga á okurvöxtum. Þetta er kaldhæðni, virðulegi forseti. Mikið afskaplega er þetta kaldhæðnislegt. Mikið er þetta öfugsnúið allt saman.

En grundvallaratriðið er þetta: Það sem við höfum lagt til, hver einasta króna, á skilyrðislaust að falla undir eignarrétt 72. gr. stjórnarskrár. Hún á skilyrðislaust að vera okkar uppsafnaði sjóður til efri ára og okkar til að flytja til eftirlifandi erfingja. Við eigum að geta skilið eftir okkur a.m.k. það sem við höfum unnið okkur inn í sveita okkar andlits, aflað tekna með eigin höndum. Hvernig í ósköpunum er hægt að gera þetta, virðulegi forseti? Hvernig er hægt að svipta okkur svona eigin fé? Það væri gaman að sjá hvernig sægreifarnir brygðust við því ef við ætluðum aðeins fá að klóra í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sem er fiskurinn í kringum landið, með því að segja: Nei, nú fáið þið ekki að veiða meira, við ætlum að skila kvótanum heim. Mikið rosalega held ég að það myndi syngja hátt í kórnum þá. Og það er alveg á hreinu að þá myndu stjórnvöld sem hér sitja stíga fast inn í til að passa upp á hagsmuni þeirra sem hafa eignað sér auðlindir okkar í kringum landið.

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega algerlega lágmark að við fáum að ráðstafa eigin fé eins og ég tel það fé vera sem við höfum lagt inn í lífeyrissjóði í gegnum starfsævina. Það er sanngjarnara, réttlátara og eðlilegra en nokkuð annað að eignarréttur okkar sé virtur og að við fáum að standa keik eftir að hafa greitt í þessa lífeyrissjóði, keik en á sama tíma pínulítið súr yfir því að hafa ekkert haft um það að segja, vera bara stillt upp við vegg og sagt við okkur: Heyrðu, góði minn, nú bara borgar þú í lífeyrissjóð hvort sem þér líkar betur eða verr, vegna þess að stjórnvöld sögðu það, vegna þess að við ætlum að taka af þér sjálfstæðið og við ætlum að segja þér hvað þú átt að gera, takk fyrir.

Að lokum, virðulegi forseti, áður en ég æsi mig enn þá meira út af þessu — og það er nóg eftir, það er svo gaman hjá Flokki fólksins í dag á hinu háæruverðuga Alþingi í þessum fallegasta ræðustóli landsins — ætla ég að vísa þessu góða og gegna máli til hv. efnahags- og viðskiptanefndar um leið og ég vonast til þess að ég þurfi ekki að mæla fyrir því í þriðja sinn og ekki vegna þess að það verði dottið upp fyrir heldur vegna þess að það verður samþykkt á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)