152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þetta er kannski endurtekið efni. Ég fletti því upp og 20. janúar áttum við sambærilegt samtal við forseta vegna þess að aðeins tveir ráðherrar höfðu boðað sig í óundirbúnar fyrirspurnir daginn eftir. Þá bar svo við að forseti hafði orðið þess áskynja áður og farið þess á leit við Stjórnarráðið að manna dagskrárliðinn betur en hafði fengið nei frá forsætisráðherra. (Gripið fram í: Allir með Covid.) Ég ætla bara að segja það sama og ég sagði 20. janúar, að við í stjórnarandstöðunni, örugglega öll sem eitt, stöndum með forseta í að fá ráðherra til að mæta hér í þingsal til að svara spurningum þingmanna eins og þeim ber að gera og ef forsætisráðherra bregst jafn illa við beiðni forseta í þetta skiptið og hún gerði 20. janúar þá stöndum við með forseta og Alþingi.