152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég vil bæta aðeins við málflutning hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hér áðan. Það eru ekki bara fleiri flokkar, sem fækkar þá í rauninni aðkomu hvers flokks að dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir, heldur eru líka fleiri ráðherrar. Það gerir það að verkum að það mæta kannski þó nokkuð margir ráðherrar í óundirbúnar fyrirspurnir en margir fá ekki spurningar af því að dýptin í þessum dagskrárlið er orðin mjög lítil núna með mörgum flokkum sem hafa kannski upphaflega áhuga á að tala um það sem mest liggur á að ræða í dægurmálaumræðunni í hvert skiptið. En áður þegar voru bæði færri ráðherrar og færri flokkar þá skapaði önnur og jafnvel þriðja fyrirspurnin frá sama flokki til annarra ráðherra ákveðna dýpt í umræðuna. Mér finnst einmitt skorta þessa dýpt í umræðuna og til viðbótar við það dýptina í það að ráðherrar svari fyrirspurnum.