152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni mínu viðtal sem ég hlýddi á í Bítinu í morgun þegar kona, búsett út á landi, lýsti vanlíðan og áhyggjum sínum og fjölskyldu sinnar vegna barns síns sem á við virkilega mikla erfiðleika, andlega erfiðleika, að stríða, hefur stundað mikinn sjálfsskaða, og íslenska kerfið virkar ekki frekar en venjulega. Við eigum hér barnamálaráðherra, virðulegi forseti, sem þeytti í rauninni Framsóknarflokknum upp til skýjanna í síðustu kosningabaráttu á kjörorðinu um að efla mannauðinn, að fjárfesta í mannauðinum, og að vera barnamálaráðherra sem ætlaði að bæta úr öllu fyrir börnin okkar. En hér er mismununin algjör eftir því hvort þú býrð úti á landi eða ekki. Jafnvel þó að foreldrarnir komi ítrekað til Reykjavíkur í bráðainnlögn fyrir barn sem er með þennan sjálfsskaða þá er aldrei nóg að gert og vanlíðan barnsins heldur áfram. Nú er svo komið að þessi fjölskylda sér engin önnur úrræði en að fara til Hollands með barnið sitt vegna þess að þar er hægt að finna úrræði. Þau þurfa að fara til Hollands með barnið sitt til þess að fá fyrir það viðunandi hjálp, til þess að bjarga litlum 13 ára dreng frá sjálfsskaða. Svona er Ísland í dag.

Virðulegi forseti. Ég fordæmi heilbrigðiskerfi sem ekki tekur utan um alla þá sem þurfa á því að halda, hvað þá þegar þörfin er eins brýn og raun ber vitni, samanber viðtalið við sorgmædda áhyggjufulla móður sem ég hlýddi á í Bítinu í morgun og ég hvet ykkur öll til að hlusta á.