152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Innrás Pútíns er skýrt brot á alþjóðalögum og hefur breytt heimsmynd okkar á nokkrum dögum, kannski um langan tíma. Það var nauðsynlegt að bregðast hratt við en jafnframt er ljóst að þetta mun með einhverjum hætti breyta okkar veruleika hér líka. Stjórnvöld hljóta nú að vera með það til skoðunar að yfirfara þjóðaröryggisstefnu landsins.

Þróttmikið viðnám Úkraínubúa hefur auðvitað vakið mikla athygli heimsbyggðarinnar. En fyrir einungis nokkrum dögum voru flestir sérfræðingar sammála um að Rússar myndu varla beita sér með þeim hætti sem nú er orðið ljóst, en virðast nú sammála um það að það er gríðarleg hætta og óljós þróun mála, og ekki eingöngu fyrir Úkraínubúa heldur fyrir alla í okkar heimshluta. Rússar hafa t.d. hótað Finnum og Svíum því að beita pólitískum, jafnvel hernaðarlegum viðbrögðum ef þeir dirfist að ganga í NATO og jafnvel hótað undir rós að beita kjarnorkuvopnum.

Þingmannaráðstefna ESB og NATO-ríkja um varnar- og öryggismál, sem við sóttum fyrir helgi, var eðlilega undirlögð undir þessa atburði. Það var ótrúlegt að finna þann samhljóm þvert á þjóðir, þvert á pólitískar skoðanir, um að þetta yrði ekki liðið. Það er gott að finna samstöðuna á þingi. Ísland hefur tekið skýra afstöðu og ég er ánægður með að hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra hafa sýnt afgerandi stuðning sambandsþjóðum okkar. En það stingur ýmislegt í augu. Við höfum lagt hlutfallslega minna til mannúðarmála en hin Norðurlöndin og frekari áform okkar í mannúðarmálum og flóttamannamálum eru enn of óskýr. En það er mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum vegna þess að fyrir smáþjóð skiptir það gríðarlega miklu máli að sjálfstæði, sjálfsákvörðunarréttur og landamæri þjóða séu virt.