152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka góða umræðu og get tekið undir flest af því sem hefur komið fram hér, m.a. það sem hv. þingmenn hafa nefnt um mikilvægi þess að gera greinarmun á rússneskum stjórnvöldum og almenningi í Rússlandi. Það er mikilvægt upp á framtíðarfrið í álfunni. Það kemur heim og saman við það sem ég heyrði á þeim fundi sem ég vísaði til í umræðu um störf þingsins með konum frá Úkraínu, sem sögðu að Rússar væru ekki óvinir Úkraínumanna og að Rússar sem búa hér á Íslandi hafi margir hverjir viljað aðstoða frændfólk sitt frá Úkraínu.

En ég vil ítreka það sem ég nefndi hér í ræðunni um mikilvægi þess að ríkisstjórnin tali skýrt varðandi áform til að mynda í netöryggismálum og hversu opin ríkisstjórnin er fyrir uppbyggingu NATO hér á landi, en það eru verulegar líkur á því að umsvif varnarbandalagsins hér muni aukast. Það segir sig eiginlega sjálft að ríkisstjórnin fylgi þjóðaröryggisáætlun eins og henni ber. En hversu hratt mun ríkisstjórnin laga sig að þessari breyttu heimsmynd, þessum breyttu aðstæðum? Við skulum líka hafa hugfast að Vesturlönd hafa veikst mjög verulega á liðnum árum og jafnvel er talað um hnignunarskeið Vesturlanda. Við þær aðstæður geta stjórnvöld sem leggjast gegn lýðræði og eru ásælin reynt að nýta sér þær aðstæður, svoleiðis að við þurfum ávallt að hafa það hugfast hvernig þau samfélög sem við höfum byggt upp á Vesturlöndum urðu til og verja þau grunngildi sem leiddu til þessa árangurs.