152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:30]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Herra forseti. Hér hefur margt gott verið sagt og lagt til. Það er spurning hversu margir eru að hlusta sem einhverju fá breytt. Það sem þó einkennir umræðuna hér og víðast hvar annars staðar er mannúð og samúð með þeim sem verða fyrir þeim ósköpum sem nú ganga yfir Úkraínuþjóðina. Hvað væri að líkindum þakklátast þeim megin úr okkar átt, einfaldast og lægi beinast við frá matvælakistunni Íslandi? Væri það ekki að við sameinuðumst um það hér í þessum sal ásamt þeim í ríkisstjórn sem fjarstaddir eru í dag og stórfyrirtækjum Íslands, flutningsfyrirtækjum, matvælaframleiðendum og þeim sem veiða úr okkar sameiginlegu sjávarauðlind að senda þessu fólki mat, fólki á faraldsfæti um hávetur? Með sameinuðu átaki held ég að það gæti orðið í gámavís það sem þangað yrði sent af íslensku hollmeti sem væri eflaust vel þegið. Við höfum áður gert slíkt, í öðru formi reyndar, Taílands-flóðin og önnur slík verkefni þjöppuðu okkur saman um góðverk sem ég held að við séum tilbúin að endurtaka. Ég varpa þessari hugmynd fram öðru sinni í dag, (Forseti hringir.) hún hlaut góðar viðtökur í morgun og þetta er eitthvað fyrir okkur til að taka áfram.