152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

almannatryggingar.

55. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir enn einu frumvarpinu, sanngirnis- og réttlætisfrumvarpi, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lýtur að kostnaði við greiðslur. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttur, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

„1. gr. Við 2. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta mál hafi áður verið lagt fram á, takið eftir, 149., 150. og 151. löggjafarþingi. Ég er að mæla í fjórða sinn fyrir þessu máli, pínulítið sanngirnismál sem mun skipta mjög marga miklu máli í samhenginu. Það er nú lagt fram hér að nýju óbreytt.

Sífellt algengara er að lífeyrisþegar flytjist til útlanda. Hvernig skyldi standa á því, virðulegi forseti, að lífeyrisþegar skuli taka þann pól í hæðina að það sé betra að kjósa með fótunum og fara burt af landinu sínu en að búa hér áfram? Skyldi ástæðan nokkuð vera sú að hér yrði þeim búin slík fátækt og matarkarfa sem er svo dýr að það er ekki nokkur einasta leið fyrir þá að lifa á þeirri framfærslu sem þeir hafa frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir sem hafa kosið að kjósa með fótunum og eiga rétt á því í þessum tilvikum fá gjarnan greiðslur frá Tryggingastofnun inn á erlenda bankareikninga. Slíkum fjármunafærslum milli landa fylgir talsvert meiri kostnaður en hefðbundnum millifærslum innan lands, eins og allir vita, og lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis bera þann kostnað sem greiðslunum fylgir. Þeir verða því fyrir skerðingu á réttindum á grundvelli búsetu sinnar. Enn eitt dæmið um skerðingarmismunun, virðulegi forseti. Ég er búin að týna tölunni fyrir langa löngu á því hvernig klipið er og haldið áfram að beygja bognu bökin.

Með frumvarpinu er lagt til að Tryggingastofnun greiði þann kostnað sem hlýst vegna greiðslna opinberra réttinda svo að girt sé fyrir mismunun á grundvelli búsetu að þessu leyti. Þar að auki er Tryggingastofnun, sem er stærri viðskiptavinur eins og allir vita, í betri aðstöðu til þess að semja við viðskiptabanka um lægri kostnað á slíkum millifærslum. Millifærslan kostar, ef ég þekki það rétt, í kringum 3.000 kr. á mánuði. Íslendingur sem hefur kosið með fótunum og býr erlendis á sínum almannatryggingalaunum þarf að greiða 3.000 kr. fyrir þessa millifærslu. Þetta eru 36.000 kr. íslenskar á ári fyrir einstakling sem er búið að svipta heimilisuppbót af því að það er talið að þegar hann á heima erlendis þá eigi hann sennilega hvergi húsaskjól, hvergi heima. Þá er hann sviptur í rauninni ótrúlega mörgum réttindum sem hann á hér frá Tryggingastofnun og hann fær berstrípaðar almannatryggingagreiðslur með engu. Svo ofan á allt saman þá þarf hann að greiða fyrir þessa aumu millifærslu, millifærslu á greiðslu sem er svo skammarlega lág að það tekur ekki nokkru tali.

Það er margt, virðulegi forseti, í þessu ágæta kerfi okkar sem við þurfum að laga. Ég biðst velvirðingar, ég meinti ekki ágæta. Ég meinti þessu handónýta kerfi sem er mannvont kerfi og níðist á þeim sem síst skyldi. Það er ótrúlegt að þurfa að mæla fyrir þessu máli núna í fjórða skiptið í röð þar sem við erum eingöngu að biðja um það að ekki sé verið að mismuna fólki sem hefur það svo bágt að það hefur þurft að flýja land til að geta haft ofan í sig og á og átt fyrir mat, þar sem þar er miklu ódýrara að borða. En nei, þá skulum við taka af þeim 36.000 kr. á ári í viðbót við allar skerðingarnar sem við skellum á þau og láta þau greiða meira en nokkra aðra almannatryggingaþega þar sem lagt er inn á íslenska bankareikninga.

Virðulegi forseti. Ég er að mæla fyrir hverju réttlætismálinu á fætur öðru í dag og ég var að mæla fyrir ansi mörgum réttlætismálum í gær. Ég mun mæla fyrir fjórum til fimm í dag. Það er náttúrlega ekkert skrýtið að það verði ekki neitt úr neinu því ég býst ekki við að stjórnarliðar sitji núna og fylgist með þeim málum sem Flokkur fólksins er að leggja fram og mæla fyrir. Ég býst við að þeir hafi yfir höfuð ekki hugmynd um hvað við erum að gera og hverju við erum að reyna að ná fram, því miður. Það sýnir í rauninni viljann til verksins og dugnaðinn í þessu fólki að reyna að vinna fyrir þjóðina sína. Ég trúði því t.d. ekki með svona einfalt mál að það gæti verið mögulegt að maður myndi mæla fyrir því margsinnis, máli sem er svo langur vegur frá að muni setja ríkissjóð á hliðina þótt þeir muni fylgja eftir þessu réttlæti.

Áður en ég algerlega sleppi mér, virðulegi forseti, er ég að hugsa um að vísa þessu ágæta máli til hv. velferðarnefndar.