152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

leit að olíu og gasi í lögsögu Íslands.

[10:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég er tiltölulega sáttur við þetta svar því að mér fannst hæstv. ráðherra vera svona frekar að færa sig frá því frumvarpi sem liggur nú fyrir frá ríkisstjórninni í samráðsgátt stjórnvalda, um bann við leit og vinnslu olíu og gass í íslenskri lögsögu. Þannig að við höldum úti von um að það verði þá að einhverju leyti endurskoðað. Ég get líka svo sannarlega tekið undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að nýta betur umhverfisvæna, endurnýjanlega, innlenda orkugjafa, en mér finnst eiginlega ekki hægt hjá hæstv. ráðherra að skella skuldinni á þingið. Það er ekki eins og ríkisstjórnin hafi gert mikið af því að leita til þingsins og lúta stjórn þess hvað varðar það að setja mál á dagskrá og klára þau. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki náð að klára rammaáætlun? Það er miklu frekar spurningin. Getur ekki verið að það sé vegna innbyrðis vanda í ríkisstjórninni? Önnur spurning fyrir hæstv. ráðherra varðandi viðbrögð við ástandinu nú: Kemur ekki til greina að lækka, þótt ekki væri nema tímabundið, álögur á eldsneyti til að draga úr þeim miklu verðhækkunum sem eru fyrirsjáanlegar þar hér innan lands?