152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

samspil verðbólgu og vaxta.

[11:54]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Einarssyni fyrir þessa umræðu í dag. Aukin verðbólga snertir öll heimili landsins. Það er ástæðan fyrir því að Seðlabankinn hefur hækkað vexti. Það er gert til þess að bregðast við núverandi aðstæðum, þá sérstaklega á fasteignamarkaði. Síðustu ár hafa verið óvenjuleg, m.a. vegna alheimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ég hef þó sagt það áður að líklega er ekki skynsamlegt fyrir Seðlabankann að auka taumhald peningastefnunnar of hratt.

Nú hillir undir lok faraldursins, atvinnulífið er að komast í gang og við höfum raunhæfa möguleika á að verðbólgan gangi hratt niður með náttúrulegum hætti. En þá þarf líka meira til. Ýmislegt hefur áhrif og það er m.a. staðan á fasteignamarkaði. Hún er erfið, fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt og mikill skortur er á framboði á húsnæði. Framboðið hefur ekki haldið í við eftirspurn. Það er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá að það er húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram á Íslandi ásamt hækkun á hrávöruverði. Ástæðan fyrir því er einfaldlega að það er skortur á íbúðum, m.a. vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til þess að verð á húsnæði er hátt. Það er verið að byggja dýrt á of dýrum svæðum. Það er ekki það sem við þurfum. Við þurfum að byggja hraðar og við þurfum að byggja hagkvæmt. Okkur Íslendingum er að fjölga hratt, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ábyrgð sveitarfélaga á hækkun fasteignaverðs er mikil og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélagið á Íslandi og því skiptir gríðarlegu máli hvað er gert. Viðvarandi skortur á lóðum og nýbyggingum hjá Reykjavíkurborg hefur ýtt undir þessa miklu hækkun og knúið áfram verðbólgu.

Virðulegur forseti. Við þurfum að gera þetta saman ef við ætlum að halda sjó. Við þurfum að vinna okkar vinnu. Við þurfum að tryggja lóðaframboð og kraftmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar fyrir alla. Þar hefur Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, skilað auðu undir (Gripið fram í.) forystu jafnaðarmanna í allt of langan (Forseti hringir.) tíma. (RBB: Hvað hafið þið gert í Hafnarfirði.)(ÁBG: Við erum búin að úthluta lóðum …)(Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti hvetur hv. þingmenn til þess að gefa ræðumönnum hljóð til að ljúka máli sínu og bendir á að það er ekki heimilt að halda uppi umræðum úr sætum sínum hér í þingsal.)