152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

samspil verðbólgu og vaxta.

[11:57]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra Bjarni Ben. Hv. þingmenn og kæru landsmenn sem fylgjast með. Ég vil geta þess strax í upphafi að af virðingu við Úkraínu þá er ég í litum þjóðfána þeirra, bláu og gulu. Ég ákvað að svíkja lit og vera í gallabuxum, þótt það sé bannað hér í þinginu, bara í dag.

Nema hvað. Margt er skrýtið í kýrhausnum. Í minni minningu var það þannig einhvern tímann upp úr 1980 að ákveðið var að bæði laun og annað væri verðtryggt, sem kom síðan í ljós að var dregið til baka þannig að launin hættu að vera verðtryggð. Þannig að við sem erum launþegar þurfum að lifa við það að verðbólgan hækkar og við þurfum einhvern veginn að redda okkur úr því.

Nú er ég búinn að velta þessu fyrir mér. Íbúðareigandi sem á nokkurrar íbúðir og leigir þær út er með verðtryggðar tekjur. Og ofan á allt annað þá borgar hann miklu lægri skatta. Hann borgar 22% í fjármagnstekjuskatt á meðan við hinir þurfum að borga 30–40% í skatt. Það er óréttlátt.

Besta ávöxtunin í dag. Það er verið að tala um að lítið framboð sé á fasteignum á Reykjavíkursvæðinu, aðallega. Ég hef þá kenningu að ástæðan sé m.a. sú að fjármagnseigendur kaupa íbúðir í gríð og erg vegna þess það er ekki hægt að fá betri ávöxtun í dag. Þegar þú leggur pening inn í bankann færðu núll komma eitthvað prósent vexti þar á og hlutabréf eru upp og niður. En íbúðaverð hækkar stöðugt. Þannig að þeir sem eiga peninga kaupa íbúðir og græða því að þeir geta selt þær aftur um leið og þeir vilja.