Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér erum við að flytja mjög þarft mál sem ég hef stutt liggur við síðan ég man eftir mér. Hef ég kynnst strandveiðum? Já, fyrsta skiptið sem ég fór á sjó til veiða var á árabát í Álftafirði, sex, sjö ára gamall. Þá fórum við út og veiddum fisk sem var síðan hengdur upp í hjall og þurrkaður og búinn til harðfiskur. Ég man enn og mun alltaf muna þegar ég fékk steinbít að borða í fjörunni í Álftafirði. Ég var unglingur, 14, 15 ára, þegar ég fór á handfærabát sem gerði út héðan frá Reykjavík á sumrin og við fórum að Snæfellsnesi, undir jökul, og veiddum þar. Þar voru ekki neinar rafmagnsrúllur, það voru bara venjulegar handfærarúllur, og það veiddist virkilega vel yfirleitt. Þetta var góður sumarpeningur sem við fengum.

Eftir að hafa kynnst þessum málum get ég sagt að þetta frumvarp Flokks fólksins er, eins og flutningsmaður, hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, kom svo vel að áðan, gjörsamlega frábært. Við erum ekki að gera neitt annað en að gefa öllum byggðum kringum landið tækifæri, tækifæri sem hefur kerfisbundið verið drepið niður af fjármálaöflum sem hafa sölsað undir sig næstum því allan kvótann, stórfyrirtæki sem eru orðin gífurlega sterk fjárhagslega vegna þess að þau hafa fengið ótrúlegt magn kvóta sem þau geta nýtt sér til að græða á tá og fingri.

Eins og komið hefur fram er árangurinn af þessu stórkostlega fiskveiðikerfi sem allir eru að hæla einhver 400 tonn á 40 árum, af þessum 220.000 tonnum. Ef við tökum bara 10% af þessum 220.000 eru það 22.000 tonn. Ég efast um að þótt við myndum gefa frjálsar handfæraveiðar yrði það niðurstaðan og þótt það yrði niðurstaðan væri það algerlega ásættanlegt vegna þess að það myndi gefa þvílíkt líf í þær byggðir við landið sem hafa nú þegar misst frá sér allan kvótann. Hann hefur verið seldur burtu og fólkið skilið eftir án þess að eiga nokkra möguleika á að róa til sjávar og bjarga sér. Við erum ekki að tala um nein ósköp. Þetta er 10 m bátar með fjórar rúllur og þessar tvær rafmagnsrúllur á mann. Við ættum því á mjög einfaldan hátt að geta stutt frumvarpið.

Ef við tökum núverandi strandveiðikerfi er það að mörgu leyti gott en líka að mörgu leyti meingallað. Það er þessi 48 daga regla og þessi furðulega regla um að það megi ekki fara út nema á ákveðnum dögum. Hvaða fíflagangur er það á Íslandi að segja við einhvern að hann megi ekki fara út þegar það er blankalogn og besta veðrið til að fara veiða: Nei, þú mátt það ekki, það er ekki réttur dagur?

Ég held að þeir sem bjuggu til þetta kerfi séu sama liðið og kom að byggingu almannatryggingakerfisins, sem er meingallað kerfi, fáránlega uppbyggt og búið til í algjörri heimsku, eins og einhver hafi fengið þá hugmynd að reyna að klekkja á fólki, bregða fæti fyrir fólk og reyna að plata það. Þetta kerfi er að mörgu leyti líka byggt þannig upp, sem er algerlega óskiljanlegt. Að einhver skuli reyna að verja þetta í stað þess að setjast strax niður og reyna að breyta því og koma kerfinu í þannig horf að það sé sátt um það, sérstaklega sátt meðal þjóðarinnar því að þjóðin er svo sannarlega ekki sátt við núverandi fiskveiðikerfi. Ég held að það sé enginn sáttur við þetta kerfi nema þeir sem græða á tá og fingri, þeir eru auðvitað alsælir: Bara frábært, við skulum berjast með kjafti og klóm, nota alla okkar fjármuni til að berjast fyrir því að halda kerfinu eins óbreyttu og hægt er. Það að fullyrða að frjálsar handfæraveiðar með fjórum rúllum rústi kerfinu, hverjum dettur svona fíflagangur í hug? Jú, áróðursmönnunum sem vilja ekki gefa eftir. Á sama tíma erum við með handfæraveiðar sem eru vistvænar, umhverfisvænustu veiðarnar. Af hverju er rækjustofninn hruninn? Af hverju er humarstofninn hruninn? Jú, af því að við erum búin að draga og við erum búin að eyðileggja botninn með trolli. Trollið er eitt versta veiðarfæri sem við getum verið að djöflast með. Við eyðileggjum botnana alveg kerfisbundið á stórum svæðum. En við höldum þessu áfram. Það er allt í lagi að hafa það. En vistvænt kerfi sem eyðileggur ekki neitt, þar sem aflinn kemur í land og fer 90% á markað — nei. Það er allt of skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina og þá sem styðja þetta gamla úrelta kerfi sem stór hluti þjóðarinnar vill ekki sjá. Það eru, eins og ég segi, aðeins þessi fáeinu prósent sem eiga þetta allt og geta grætt á tá og fingri af þessu kerfi sem styðja það.

Málið er ekki flókið. Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að taka afstöðu með landsbyggðinni, tökum afstöðu með litlu þorpunum í kringum landið þar sem var blómleg veiði, þar sem fólk gat með góðu móti siglt út, örstutt, bara nokkur hundruð metra, til að komast í gjöful fiskimið og dregið ferskan fisk að landi, farið vistvænustu leiðina beint heim. En því miður hefur það sýnt sig hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn að það er ekki til nein heilbrigð skynsemi. Þeir munu setja undir sig hausinn. Þeir munu halda áfram að verja arfavitlaust kerfi sem segir að sjómenn megi ekki veiða nema ákveðna daga í viku, sama hvernig viðrar þá bara verða þeir að gjöra svo vel og sleppa því að veiða. Ef maður horfir á þetta þá stuðlar það frekar að því að menn séu að fara út í viðsjárverðu veðri sem getur skapað hættu. Að þeir skulu ekki fá að velja sjálfir eftir skynsemi, þótt þeir hafi 48 daga í kerfinu. Við hljótum að treysta sjómönnum. Þeirra er öryggið, líf þeirra er undir, þannig að við ættum alveg að geta treyst þeim. Bara þetta sýnir hversu arfavitlaust kerfið er og hversu vitlaust kerfi er verið að verja hér.