152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

mengunarslys vegna gamalla olíutanka.

[15:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra viti í fyrsta lagi af alvarleikanum, þessum umhverfisslysum sem átt hafa sér stað. Í öðru lagi, eins og ég heyri frá Suðureyri þá er þetta hvorki meira né minna en farið að leka út í sjó og það voru íbúar þar sem áttuðu sig á því þegar umhverfi þeirra var allt farið að anga af olíu. Ég veit að líftími þessarar tanka var áður um 25 ár og síðan kom einhver reglugerð hér á árum áður, árið 2017, að mig minnir, þar sem líftíminn var í raun gerður eilífur, það þurfti bara að þykktarmæla dunkinn reglulega. Mig minnir að þremur mánuðum eftir slíka þykktarmælingu árið 2019 þá hafi tankur einmitt farið að leka á Hofsósi. Þannig að ég er bara að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé virkilega tilbúinn að taka utan um þetta mál og koma í veg fyrir það, eða hvort við þurfum að fara að horfa upp á slíkt gerast núna vítt og breitt um landið vegna þess að þessir olíugeymar eru orðnir eldgamlir, bara gegnumgangandi eldgamlir, úti um allt.